150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd, um frumvarp sem bar heitið frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Nefndin fékk að sjálfsögðu til fundar við sig fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu ásamt fleiri aðilum; Nasdaq, Samtökum sprotafyrirtækja, Eyri Invest, aðilum sem komu að mótun nýsköpunarstefnu og einnig fengum við skriflegar umsagnir frá fjölda aðila. Þetta liggur allt fyrir á vef þingsins.

Með frumvarpinu er lagt til að stofna skuli sérstakan sprota- og nýsköpunarsjóð, Kríu, sem hafi það hlutverk að fjárfesta í vísisjóðum sem sérhæfa sig í fjárfestingu í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Markmið sjóðsins verði að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem birt var haustið 2019 er lögð áhersla á að einfalda þurfi starfsumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja, efla stoðkerfi, auka aðgengi að fjármagni og erlendum sérfræðingum og styðja við sókn á alþjóðavettvangi. Frumvarp þetta stuðlar að framangreindum markmiðum en lagt er til að stofna skuli sérstakan sprota- og nýsköpunarsjóð, Kríu.

Nefndin bendir á mikilvægi þess að starfsemi Kríu geti hafist eins fljótt og auðið er og sjóðurinn hafi næga fjármuni til að sinna verkefnum. Það er mikilvægur þáttur í því að kraftar nýsköpunar verði leystir úr læðingi í samræmi við markmið um að auka fjölbreytni í atvinnulífinu.

Í umfjöllun nefndarinnar var rætt svolítið um það hvort ástæða væri til að heimila sjóðstjórninni að hafa ákveðna fyrirvara á fjármögnuninni. Gert er ráð fyrir því að aðilar hafi safnað fé frá einkaaðilum og geti þá fengið þennan stuðning frá ríkinu. Farið er ágætlega yfir þá umfjöllun okkar í nefndarálitinu, en niðurstaðan er sú að gera ekki breytingar á frumvarpinu hvað það varðar. Við teljum þó mikilvægt að stjórnin fari yfir það í stofnsamþykktum sínum að hægt sé að fá vilyrði fyrir fjárfestingunum, vilyrði frá sjóðstjórninni að því gefnu að umrædd fjármögnun náist frá einkaaðilum.

Jafnframt komu fram áhugaverðar athugasemdir frá Nasdaq Iceland, sem við gerum ágætlega grein fyrir í nefndarálitinu, en þær lúta að því að öðrum fjárfestum í sérhæfðum sjóðum bjóðist að kaupa hlut Kríu á fyrir fram ákveðnum kjörum að ákveðnum tíma liðnum þegar frumfjárfestingartímabili sjóðsins er lokið. Nasdaq gerði athugasemdir við það. Telur nefndin að slík sala samrýmist ekki markmiðum stjórnvalda og tilgangi frumvarpsins. Það sé ekki markmið að hámarka arðsemi af því fjármagni sem lagt er til nýsköpunarumhverfis heldur að stuðla að uppbyggingu og heilbrigðu vaxtarumhverfi. Með því komist ríkið hjá því að vera beinn þátttakandi í áhættufjárfestingum. Það kunni að vera óaðlaðandi fyrir einkafjárfesta á síðari stigum í rekstri sjóða að opinber aðili hafi beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta varðandi ákvarðanir sem varða einstök fyrirtæki í eignasafni sjóðs.

Rætt var aðeins um skipan stjórnar. Í einhverjum umsögnum kom fram ábending um það. Vill nefndin árétta mikilvægi þess, sem tekið er fram í greinargerð við frumvarpið, að í stjórn sjóðsins veljist einstaklingar með greinargóða þekkingu og reynslu af fjárfestingum, sprota- og nýsköpunarumhverfi og öðrum þeim þáttum er snúa að stjórn sjóðsins og að samsetning þekkingar stjórnarmanna verði með þeim hætti að hún sé í stakk búin til þess að hafa góðan og víðtækan skilning og yfirsýn yfir verkefni sjóðsins.

Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins segir að stjórn skuli að jafnaði taka ákvarðanir um fjárfestingu í sérhæfðum sjóðum einu sinni á ári. Í umsögn Samtaka sprotafyrirtækja lögðu samtökin áherslu á að það gæti verið óskynsamlegt að afmarka það við „einu sinni á ári“. Uppi voru mismunandi túlkanir á því hvað þetta orðalag þýddi. Nefndin telur ekki þörf á að kveðið sé á um tíðni ákvarðana stjórnar um fjárfestingu í lögum, heldur hagi stjórn sjóðsins töku ákvarðana í samræmi við tilefni og þarfir hverju sinni. Auki það sveigjanleika sjóðsins, sem ætlað er að starfa í kviku umhverfi, til fjárfestinga og hvetji enn frekar til stofnunar nýrra sjóða.

Við í nefndinni leggjum til eftirfarandi breytingu:

„Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Ákvarðanir stjórnar Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs samkvæmt lögum þessum eru endanlegar á stjórnsýslustigi.“

Við leggjum til breytingu á fyrirsögn frumvarpsins, að hún verði: Frumvarp til laga um Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð.

Það sé gegnsætt og alveg ljóst um hvað málið fjallar.

Undir nefndarálitið skrifa sú sem hér stendur, Bryndís Haraldsdóttir, Óli Björn Kárason, Jón Steindór Valdimarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Oddný G. Harðardóttir, Smári McCarthy, Brynjar Níelsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Willum Þór Þórsson.

Virðulegur forseti. Þá hef ég farið í stórum dráttum yfir nefndarálitið. Eins og sést held ég að ég geti talað fyrir hönd okkar allra í nefndinni. Við erum samþykk þessu áliti og teljum þetta mikilvægt skref í því að efla nýsköpunarumhverfi hér á landi.

Mig langar aðeins að víkja að skoðunum mínum á málinu. Í grófum dráttum snúast þessi áform um að ríkið fjárfesti yfir nokkurra ára tímabil í vísisjóðum til móts við einkafjárfesta. Ég held að mjög mikilvægt sé að huga að því. Þetta er í rauninni hvatning til þess að einkafjárfestar komi og fjárfesti í sjóðum, sjóðasjóðum, sem fjárfesta svo í nýsköpunarfyrirtækjum. Með þeim hætti geti ríkið stuðlað að uppbyggingu vísisjóða og fjármögnunarumhverfis fyrir nýsköpun í samstarfi við markaðinn. Þessi aðferð er auðvitað vel þekkt á alþjóðavísu, hvort sem litið er til Norðurlandanna, annarra Evrópulanda eða Ísraels. Víða hafa stjórnvöld ákveðið að byggja upp aðgengi að vísifjármagni með því að auðvelda stofnun slíkra sjóða. Ég held líka að mikilvægt sé að geta þess að við höfum hér auðvitað nýsköpunarsjóð og fleiri tæki í stuðningsumhverfi okkar. En þetta er aðeins önnur nálgun þegar verið er að tala um að fjárfesta í svona sjóðum sem svo fjárfesta áfram í nýsköpunarfyrirtækjum.

Efling alþjóðlegra hugvitsdrifinna atvinnuvega er að flestra mati lykilatriði í að viðhalda lífsgæðum okkar til framtíðar. Þeir atvinnuvegir byggjast á hugviti, alþjóðaviðskiptum og þekkingu sérhæfðs starfsfólks frekar en takmörkuðum auðlindum. Markviss uppbygging þeirra þarfnast öflugs vistkerfis nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs. Þar gegna skólar, rannsóknastofnanir, frumkvöðlar og svo fjármagn lykilhlutverki. Þess vegna held ég að stofnun Kríu sé mikilvæg fyrir okkur öll. Við erum að fjalla um þetta frumvarp í kjölfar margra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur farið í vegna Covid. Ég vil leggja áherslu á að þetta er ekki mikilvægt mál vegna Covid og þeirrar aðstöðu sem við erum í núna. Þetta var mikilvægt mál fyrir Covid en er kannski ekki síður mikilvægt núna miðað við þá stöðu sem uppi er í atvinnulífi okkar.

Virðulegur forseti. Ég held að líka sé ástæða til að fara aðeins yfir það að ríkisstjórnin hefur auðvitað gert heilmikið í því að efla nýsköpunarumhverfið. Við höfum á síðustu misserum aukið verulega til að mynda skattafslætti og endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar. Við höfum aukið heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í nýsköpunarsjóðum og vísisjóðum, sem lengi hefur verið barist fyrir og er talið mjög mikilvægt til að ýta undir öfluga nýsköpun og nýsköpunarumhverfi. Við höfum komið að einföldun regluverks. Ég held að það sé mjög mikilvægt, og ekki síður mikilvægt fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref, að hafa einfalt og skýrt regluverk. Þá skiptir líka miklu máli að stjórnsýslan sé sem mest rafræn, eins og við höfum verið að stuðla að í gegnum stafrænt Ísland.

Við höfum hugað sérstaklega að skapandi greinum. Ekki er langt síðan við lækkuðum skatta á höfundaréttargreiðslur og þannig virðum við það að hugverk eru sambærileg við önnur verk. Ég veit að sú skattalækkun leiddi til mikillar ánægju hjá hugverksmönnum á sviði lista og menningar. Ég held að það muni skipta okkur miklu máli til framtíðar. Við höfum sett umtalsvert fé inn í Nýsköpunarsjóð námsmanna. Við höfum sett aukið fé inn í Matvælasjóð sem á að ýta undir nýsköpun á sviði matvælaframleiðslu. Hér fjölluðum við áðan um Orkusjóð og þau mikilvægu verkefni sem honum eru falin, nýsköpun í loftslagsmálum með framlagi í Loftslagssjóð, sóknaráætlanir landshlutanna, aukið framlag í Tækniþróunarsjóð og svo mætti lengi telja.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta frekar þó að hægt væri að halda langa tölu um mikilvægi nýsköpunar og mikilvægi þess að hið opinbera leggi sitt af mörkum til að hér sé heildstætt og gott umhverfi fyrir frumkvöðla til að byggja upp fyrirtæki sín. En það mál sem við fjöllum um núna, stofnun Kríu, er vissulega mikilvægt og stórt skref í þeim efnum.