150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Miðflokkurinn fagnar þeirri áherslu sem fram kemur í frumvarpinu á uppbyggingu á samgöngumannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Flokkurinn fagnar sérstaklega áherslu á nútímavæðingu á ljósastýringarkerfi höfuðborgarsvæðisins, samkomulagi um framkvæmdir á stofnbrautum og áætlaðri uppbyggingu hjólastíga og annarra vistvænna samgöngumáta. Flokkurinn getur hins vegar ekki fallist á áform um uppbyggingu borgarlínu. Mikil óvissa er um skipulag, framkvæmd, rekstur og fjármögnun þess hluta samkomulagsins sem snýr að henni. Vegna þess er að mati minni hluta óforsvaranlegt að ráðstafa tugum milljarða í þann hluta verkefnisins. Enn liggur engin rekstraráætlun fyrir.

Það er auk þess umhugsunarefni að nú, þegar við höfum verið að glíma við mikinn veirufaraldur með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið og efnahagslífið og ríkissjóður orðinn verulega skuldsettur, skuli verið að setja hér umtalsverða fjármuni í verkefni sem lýtur að borgarlínu, upp á tugi milljarða króna. Í meirihlutaálitinu er rakið að um 50 milljarðar kr. snúi sérstaklega að borgarlínu en fram hafa komið skoðanir þess efnis að sá hluti samkomulagsins geti kostað allt að 250 milljarða kr.

Það virðist óljóst hvar og með hvaða hætti á að koma mannvirkjum borgarlínu fyrir á höfuðborgarsvæðinu. Í frumvarpinu kemur fram að gera beri hluthafasamkomulag. Í slíku samkomulagi felast grundvallarskuldbindingar milli aðila sem varpa skýrri mynd á það með hvernig menn ætla að starfa saman og taka á ágreiningsmálum ef upp koma. Hér á að stofna félag sem mun lifa a.m.k. þrjár til fjórar ríkisstjórnir og fjölda bæjar- og sveitarstjórna. Því má ætla, og er nánast öruggt, að fram komi ágreiningur í þeim efnum. Því er mikilvægt að samkomulagið liggi fyrir áður en gengið er frá stofnun félagsins. Spyrja má hvort það sé venja á almennum markaði að gengið sé frá bindandi hluthafasamkomulagi eftir að aðilar hafa gengið frá skuldbindandi hlutafjárloforðum þar sem ekki er auðvelt að hverfa frá slíkum loforðum komi í ljós að aðilar séu ekki sáttir við það sem í hluthafasamkomulagi á að felast, og þá vísa ég til þess að nýjar sveitarstjórnir, bæjarstjórnir, borgarstjórnir og ríkisstjórnir munu koma að málinu.

Það er nauðsynlegt að fá fram skýrari upplýsingar um stjórnskipulega stöðu hins svokallaða stýrihóps. Honum virðist ætla að stýra félaginu. Hann virðist eiga að taka þær ákvarðanir sem máli skipta en slíkar ákvarðanir eru samkvæmt hlutafélagalögum og lögum um opinber hlutafélög á forræði stjórnar hlutafélagsins og ákvarðanir framkvæmdar af framkvæmdastjóra hlutafélagsins. Þar sem þessi tilhögun mála gæti gengið gegn lögformlegu skipulagi hlutafélags þarf að skýra nánar hvort ætlunin sé að gera stjórn hlutafélagsins í raun valdalausa eða hvort henni verði falið að framkvæma ákvarðanir stýrihópsins burt séð frá eigin sannfæringu. Stjórnarmönnum hlutafélaga ber að gæta hagsmuna félagsins í einu og öllu og því þarf að svara hvort stjórnin sé hér í raun einungis til málamynda og hvort það standist yfir höfuð lög um hlutafélög.

Á bls. 2 í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að gert sé ráð fyrir umferðargjöldum eða sambærilegri fjármögnun árið 2022. Útilokað er að hönnun og byggingu vega verði lokið þannig að unnt sé að innheimta umferðargjöld árið 2022 og ég held að allir séu meðvitaðir um það og átti sig á því. Hérna vantar raunhæfa dagsetningu og auðvitað á nefndin að leggja fram raunhæfa dagsetningu í þeim efnum. Það vekur athygli að fjárlaganefnd ætlar í eftirlitshlutverki sínu — sem er náttúrlega ákaflega mikilvægt vegna þess að gríðarlegir fjármunir eru í spilunum og við vitum að fjármunir ríkisins eru takmarkaðir — að ræða við stýrihópinn og fá frá honum upplýsingar og þá vonandi gögn en ekki frá stjórninni sem ber hina raunverulegu ábyrgð. Þarna erum við aftur komin að því sem ég hef verið að benda á, þ.e. hinum svokallaða stjórnskipulega þætti stýrihópsins, hver hann er í raun og veru. Ekki hefur alltaf verið auðvelt að fá gögn frá opinberum hlutafélögum. Við þekkjum það hér. Í fyrirspurnum og eftirlitshlutverki Alþingis hefur það oft og tíðum verið mjög erfitt og tekið langan tíma og má í því sambandi nefna t.d. Lindarhvol. Ef fjárlaganefnd ætlar fyrir hönd Alþingis að hafa raunverulegt eftirlit með þessum miklu fjármunum og mikilvægu verkefnum þá verður að setja í lög, að dómi minni hluta, ákvæði sem kveða á um skilyrðislausa upplýsingaskyldu og viðeigandi gögn til þingsins. Að öðrum kosti er ekki tryggt að nefndin fái þau gögn sem hún þarf á að halda til að geta sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þess að það er afar mikilvægt á öllum stigum málsins að fjárveitingavaldið hafi eftirlit með verkefninu. Fjármunirnir eru af slíkri stærðargráðu að það verður að fylgjast grannt með því hvernig þeim er ráðstafað og þá þarf að tryggja öll þau úrræði sem fjárlaganefnd á að hafa í þeim efnum og besta úrræðið er þá einfaldlega að hafa skilyrðislausa upplýsingaskyldu í lögunum sjálfum.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir því að fullbúnum samgöngumannvirkjum verði ráðstafað ýmist til ríkis eða viðkomandi sveitarfélags. Í lögunum er ekki að sjá hvernig fara skuli með þau tilvik þegar fullbúin samgöngumannvirki reynast dýrari eða ódýrari en sem nemur verðmæti eignarhluta þess sem fær mannvirkið. Hér verður að segjast, herra forseti, að ég tel verulegan annmarka að ekki sé tekið á því hvernig bregðast skuli við umframkostnaði verkefna, falli hann til. Í þeim efnum er ekki nægilegt að vísa í eignarhlutdeild í félaginu. Við þekkjum umframkostnað af framkvæmdum sem hafa verið settar í ohf.-búning. Þar er framúrkeyrsla sem kallar síðan á auknar fjárveitingar og það má nefna framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng sem dæmi, það var mikilvæg framkvæmd en ansi dýr og kostnaðarsöm og fór langt fram úr því sem ætlað var í upphafi. Hér er ákaflega mikilvægt að þeir hlutir séu á hreinu, þ.e. hvernig skuli fara með þau tilvik þegar fullbúin samgöngumannvirki reynast dýrari eða ódýrari. Ég verð að segja, herra forseti, að ég tel það verulegan annmarka á frumvarpinu.

Í 5. kafla greinargerðar á bls. 5 í frumvarpinu kemur fram að sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja fram frumvarp á Alþingi var ekki haft samráð um drög að því í samráðsgátt stjórnvalda. Asinn var svo mikill við að koma því í gegn að ekki þótti tilefni til að setja það í samráðsgáttina. Það verður að sjálfsögðu að gera athugasemdir við að sá annars ágæti samráðsvettvangur, sem komið hefur verið upp til að tryggja gæði lagasetningar og til að almenningur og hagsmunaaðilar geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri, skuli ekki vera notaður í svo gríðarlega stóru máli sem varðar alla höfuðborgarbúa og alla landsmenn. Ég efast um að allir landsmenn séu sáttir við að ríkissjóður sé að setja svo gríðarlega fjármuni í verkefni eins og borgarlínu, hafandi holótta malarvegi sem eru lokaðir stóran hluta ársins að vetri til vegna snjóa og að þeir sem skattgreiðendur eigi síðan að fara að greiða fyrir borgarlínu upp á tugi milljarða króna. Það hefði verið fullkomlega eðlilegt að almenningur hefði getað nýtt sér þennan góða samráðsvettvang sem er hugsaður til þess að fá álit almennings og tryggja gæði lagasetningar. Að skautað sé fram hjá því vegna þess að það liggur svo á að koma málinu í gegn er bara afar dapurleg meðferð á málinu að mínu mati og ekki til eftirbreytni.

Á bls. 5 í frumvarpinu kemur einnig fram sá möguleiki að í stað þess að ríkissjóður tryggi verkefninu 15 milljarða með þróun og sölu á Keldnalandinu svokallaða komi til greina að framlagið komi úr sambærilegu landi. Ekki er að finna neinar leiðbeiningar í frumvarpinu um það til hvaða lands er horft í þeim efnum. Ég spurði hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson um það í andsvari til hvaða lands væri verið að horfa og því var ekki hægt að svara. Það er eitthvað sem á að sjálfsögðu að skýra hér og það getur breytt forsendum frumvarpsins og hlutafélagsins verulega ef er verið að horfa til annars lands. Er það lægra að verðmæti en Keldnalandið? Hvað myndi það þýða? Myndi það þá ekki þýða enn þá frekari útgjöld af hálfu ríkisins, bein útgjöld eða sölu á einhverjum ríkiseignum? Þetta finnst mér mikill galli á frumvarpinu.

Á bls. 9 í greinargerð, um 6. gr., kemur fram að fjármagnsskipan félagsins hafi ekki verið útfærð endanlega. Þegar um jafnt kostnaðarsamt og flókið verkefni er að ræða sem frumvarpi þessu, verði það að lögum, er ætlað að hrinda í framkvæmd verður að ætla að svo sannarlega færi betur á því að hafa gengið frá þeirri útfærslu áður en frumvarpið var lagt fram. Enn og aftur sjáum við að verið er að fara í flýtimeðferð. Ég minni bara á að það er staðreynd að þegar menn flýta sér geta orðið mistök í lagasetningu. Við sjáum t.d. í aðgerðapökkum og fjáraukalögum ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins að þar hafa menn verið að flýta sér, skiljanlega, en þar hafa líka verið gerð mistök eins og varðandi hlutabótaleiðina, að ekki skyldi hafa verið betur gengið frá því að hún yrði ekki misnotuð eins og raunin hefur orðið. Hér er verið að fara sömu leið, verið að drífa málið í gegn. Það er ekki hægt að fá álit almennings af því að það liggur svo á að koma því áfram og hér er veruleg hætta á að menn geri mistök.

Varðandi útfærsluna á framkvæmd gjaldtöku er ekki að sjá að unnið sé neitt sérstaklega að því á vegum samgönguráðherra. Ég hef ekki orðið var við það. Fyrir liggur að það er ósætti í ríkisstjórninni um þá leið og þá má leiða líkur að því að með því bendi allt til þess að á endanum þurfi ríkissjóður að standa straum af 105 milljörðum kr. af þeim 120 sem samgöngusáttmálinn nær til. Það ríkir mikil óvissa um þann þátt málsins sem lýtur að gjaldtöku og framkvæmd á henni sem á að skila 60 milljörðum kr., minnir mig. Það er eitthvað sem hefði þurft að fara mun betur yfir og liggja ljóst fyrir hver stefnan væri í málaflokknum. Það er bara því miður þannig að það er allt upp í loft innan ríkisstjórnarinnar hvað þá leið varðar. Engu að síður er verið að fara hana hér. Það er heldur ekki í samræmi við eignarhlutann, þ.e. 75% og 25%, sem fram kemur í frumvarpinu. Skattlagningin á umferð er útfærð eins og ég segi og ekkert samkomulag er um notkunargjöld og hvað þá útfærslu þeirra. Það er enn einn gallinn á málinu að leggja upp með þá leið þegar ekkert liggur fyrir um það með hvaða hætti hún verður framkvæmd, hvert gjaldið verður o.s.frv. Á endanum greiða skattgreiðendur það.

Ég verð þó að segja að það er jákvætt í málinu að mikilvægum áföngum var náð innan nefndarinnar við að skýra meðferð á söluandvirði Keldnalandsins og einkum ef það reynist hærra en áætlanir í frumvarpinu gera ráð fyrir. Það var mjög mikilvægt og var skýrt í störfum nefndarinnar og ég fagna því sérstaklega. Það er þá þannig að ríkissjóður mun ekki þurfa að leggja enn meira fjármagn til verkefnisins þar sem umframféð verður eign ríkissjóðs, ef svo má segja.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns fagnar Miðflokkurinn því að kominn er farvegur og vonandi farsæl lausn til að byggja upp samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt til framtíðar. Margt er ófrágengið, eins og ég hef komið inn á í þessari framsögu nefndarálits, og væri betra að ganga frá þeim málum áður en frumvarpið verður að lögum.

Eins og ég sagði í upphafi telur Miðflokkurinn áform um borgarlínu vanhugsuð. Verkefnið er gríðarlega kostnaðarsamt og ekki er að sjá með nokkru móti að það leiði til þeirrar hagkvæmni sem eðlilegt er að gera kröfu um. Því er það skoðun Miðflokksins að borgarlína sé í raun sóun á fé skattborgara. Auk þess má nefna að að sjálfsögðu ætti að liggja fyrir arðsemismat, sem liggur ekki fyrir, sem er grundvallarforsenda við ákvörðunartöku framkvæmda. Staðreyndin er sú að vinna við samgöngur undanfarin ár hefur einkennst af því að ráðamenn henda upp hugmyndum á hálfgerðum hlaupum og það án þess að arðsemismat sé gert og málum forgangsraðað. Það er í raun og veru mjög sérstakt og einkennilegt að ekki skuli liggja fyrir í þessu máli arðsemismat á þeirri gríðarlegu framkvæmd sem felst í borgarlínu, og ég tek það fram að ég er að tala um borgarlínuna, að fjármunirnir séu lagðir fram með þessum hætti og að arðsemismat liggi ekki fyrir. Það er ljóst að til stendur að innheimta 60 milljarða af íbúum höfuðborgarsvæðisins án þess að útfærsla á innheimtu þess skatts liggi fyrir. Sú fjárhæð sem fyrirhugað er að taka úr vösum skattgreiðenda, 60 milljarðar, samsvarar u.þ.b. nýjum Landspítala. Þetta er bara einn samgöngumáti, þetta er algjörlega óútfært. Er þetta lest? Er þetta langur strætó? Útfærslan liggur ekki fyrir og þarna er verið að setja 60 milljarða í það og maður spyr sig: Höfum við efni á því í ljósi þess hver staða ríkissjóðs er í dag? Er þetta það sem almenningur vill í landinu? Mörg verkefni liggja fyrir núna eftir veirufaraldurinn og tekjur ríkissjóðs hafa minnkað verulega og á sama tíma og skuldirnar hafa aukist verulega á að leggja 60 milljarða í borgarlínu. Í sjálfu sér er verið að binda hendur kjörinna fulltrúa eins og í Reykjavík og fjárstjórnarvaldið hvað það varðar næstu sirka fjögur kjörtímabil. Hér eru skuldbindingar fyrir næstu fjögur kjörtímabil sem við vitum ekkert hvernig verða. Við vitum ekki hvernig staða efnahagslífsins verður. Það er mikil óvissa í þeim efnum. Þá er verið að skuldbinda m.a. að stórum hluta ríkissjóð fram í tímann. Áður en samkomulagið fer af stað er búið að búa til nýja stofnun sem heitir Verkefnastofa borgarlínu. Það er augljóst að það á bara að fara í verkefnið sama hvað menn segja og ríkissjóður á að borga. Við erum þeirrar skoðunar í Miðflokknum að samkomulagið sé mjög vanhugsað og vanti allar útfærslur þegar kemur að borgarlínu.

Það þarf að upplýsa um það hvernig á að fjármagna borgarlínuna. Á að leggja á þessi gjöld, eins og ég nefndi áðan, og er lagt upp með? Það þarf líka að upplýsa alla landsmenn um það að eins og staðan er í dag er ekkert annað að sjá en að það verði að stórum hluta ríkissjóður og skattgreiðendur sem þurfi að greiða fyrir þetta. Í andsvari við hv. þm. Harald Benediktsson nefndi ég sérstaklega í því sambandi Vestfirðina sem tilheyra hans ágæta kjördæmi, hvort íbúar þar sætti sig við að þurfa að fara að greiða niður borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og þeir keyra holótta vegi og samgöngur eru eins og þær eru á Vestfjörðum. Ég er ekkert viss um að íbúar þar sætti sig við það. Þeir fengu ekki einu sinni að tjá sig um það í samráðsgáttinni vegna þess að það lá svo óskaplega á að koma málinu áfram. Það þarf bara að fá það á hreint hvort almenningur og skattgreiðendur eru yfir höfuð tilbúnir til að fara í þá gríðarlegu framkvæmd sem borgarlínan er, sérstaklega á þeim tímum sem við erum á núna og eins og staða efnahagsmála er. Auk þess má velta því fyrir sér hvort íbúar höfuðborgarsvæðisins séu sammála því að leysa samgöngumálin með borgarlínu. Mislæg gatnamót koma til með að auka verulega flæðið og stytta ferðatímann og eru væntanlega ekki nærri því eins kostnaðarsöm og borgarlínan.

Umræðan um borgarlínuna hefur verið mjög fyrirferðarmikil en engin heildarmynd hefur verið lögð fram og ekki heldur hvernig hún mun tvinnast saman við t.d. umferð einkabílsins og gangandi vegfarendur. Svo vantar rekstrarforsendur. Spurningin er: Mun borgarlína fjölga farþegum sem nýta almenningssamgöngur og létta þannig á umferð og mengun? Er búið að sýna fram á það? Það er eitthvað sem þarf að liggja fyrir. Ef við setjum það í samhengi við það sem aðrar borgir hafa gert þá erum við sennilega að horfa á mun hærri upphæð en þá 50 milljarða sem ríkissjóður leggur í borgarlínuna. Ég nefndi töluna 250 milljarða. Hún hefur verið nefnd í umræðunni. Þarna eru miklir óvissuþættir sem þarf að skýra mun nánar og skipta verulegu máli í þessu öllu saman vegna þess að það er alveg ljóst að ef áætlanir fara fram úr öllu þá liggur ekkert fyrir hvernig á að mæta því. Væntanlega verður það á endanum ríkissjóður sem þarf að bæta í og er nú nóg komið. Maður spyr sig hvort ekki hefði verið hægt að fara hægar í sakirnar og gera ekki sömu mistökin aftur og aftur. Við þurfum að læra af þeim í stórum framkvæmdum hér. Það er búið að veita mikið fjármagn t.d. í Strætó til að efla almenningssamgöngur undanfarin ár. Höfum við náð árangri í þeim efnum? Nei, við höfum ekki náð árangri. Þar hefur ekki náðst sá árangur sem vonast var eftir. Samt var verulegum fjármunum bætt í það. Það voru u.þ.b. 4% sem nýttu Strætó árið 2012 og núna eru u.þ.b. 4% sem nýta Strætó þannig að það hefur ekki náðst neinn árangur þar. Við sjáum t.d. að áhugi á rafbílum og rafhjólum hefur aukist mikið þannig að komnir eru samgöngumátar sem geta bætt umferðarflæði um borgina. Það eru miklar efasemdir um að borgarlína muni ná þeim árangri sem stefnt er að. Staðreyndin er sú að ef borgað er með Strætó eins og er verið að gera þá þurfum við að sama skapi að borga með borgarlínunni. Í þeim efnum verða væntanlega verulegar fjárhæðir.

Við vitum að við búum í harðbýlu landi þar sem veðráttan er óútreiknanleg. Það hefur alltaf verið þannig á Íslandi að einkabíllinn er hverri fjölskyldu afar mikilvægur og það er ekki að fara að breytast í náinni framtíð. Við þurfum að horfast í augu við það, þó að sumir, sérstaklega í meiri hluta borgarstjórnar, vilji gera allt til þess að sporna við notkun einkabílsins, að við búum í þannig landi að einkabíllinn er hverri fjölskyldu nauðsynlegur.

Ég ætla að ljúka máli mínu á því að nefna að Vegagerðin hefur um árabil lagt fram tillögur um mislæg gatnamót á Bústaðavegi og Reykjanesbraut sem dæmi. Það hefur mætt daufum eyrum borgarstjórnarmeirihlutans. Manni sýnist sem svo að það sé einfaldlega verið að tefja önnur verkefni til að hægt sé að setja allt púðrið í borgarlínuna.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er lokið. Miðflokkurinn fagnar þeim farvegi sem kominn er (Forseti hringir.) varðandi samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu, en við getum ekki stutt borgarlínu.