150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[23:26]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur kærlega fyrir. Það er gjaldfrjálst í strætó á Akureyri. Það hefur gefist mjög vel. Ég kann engar tölur um það hvort nægjanlega margir nýta sér vagnana þar. Það sem ég þó veit er að það strandar á tíðninni, eins og hv. þingmaður hefur talað um hér í kvöld og ég er henni sammála. Þetta snýst alltaf um tíðnina.

Það sem ég hefði kannski viljað sjá, til að gefa einhverja hugmynd um pælingar, er að fólk gæti fengið frítt í strætó sé það á leið inn í borgina á ákveðnum tíma dagsins. Síðan mætti hafa frítt í strætó úr borginni á ákveðnum tíma dagsins. Það sem ég er að segja er að mér finnst á engan máta fullreyndar ýmsar aðferðir sem beita má áður en farið er í svona stórkostlega fjármögnun sem okkur á Alþingi er ætlað, liggur við, að standa undir.

Hins vegar vil ég vera sammála hv. þingmanni sérstaklega um að það er eðlilegt að atvinnustarfsemi flytji úr miðborginni. Þess vegna fannst mér sérstakt að áfram er haldið með Landspítala hér þó að miðja höfuðborgarsvæðisins sé allt önnur í dag.