150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[23:28]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara inn í Landspítalamálið því að það er efni í langa og mikla umræðu sem við höfum tekið áður.

Þetta er mjög mikilvægt og ekki síður mikilvægt einmitt eftir opnun borgarlínu. Hún þarf að virka í báðar áttir og hún á ekki að bara að vera þannig að verið sé að flytja fólk úr úthverfum. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði „ósjálfbærum jaðarsveitarfélögum“. Ég hygg að hv. þingmaður hafi verið að vísa í skrif Hilmars Þórs Björnssonar. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla því algjörlega þegar talað er um ósjálfbær jaðarsveitarfélög. En það á auðvitað ekki að vera þannig, hvort sem það eru stofnvegakerfi okkar eða almenningssamgöngukerfi eins og borgarlína, að það snúist um að flytja fólk á morgnana inn í miðborgina og seinni partinn hina leiðina. Það er auðvitað þannig að við erum með eitt stórt atvinnusvæði og hér á fólk að geta farið á milli eins og í öllum öðrum borgarsamfélögum.

Hv. þingmaður vísaði í rekstraráætlunina og rekstur borgarlínu og ég var líka spurð að því í andsvari áðan. Ég held að það sé hægt að líkja þessu við rekstur á hjartadeild í nýju hátæknisjúkrahúsi eða í gömlu húsnæði sem hentar illa til þeirrar starfsemi. Með því á ég við að með uppbyggingu borgarlínu eykst hagkvæmni í rekstri vagnanna vegna þess að þeir komast óhindrað í gegnum umferðina. Það er mikil hagkvæmni í rekstri sem er samfélagslegur því að í dag er það markmið Strætós að vera með 30–40% af rekstrarkostnaði greidd af fargjöldum. Ég held að það sé ekki að nást alveg og það er hærra en markmiðið er víða erlendis. Þetta verður alltaf greitt af samfélaginu. En það eru líka samgöngurnar okkar, fráveiturnar okkar og aðveitur. Allt er það samfélagslegur kostnaður vegna þess að við þurfum jú að komast á milli staða. Þess vegna er svo mikilvægt að huga að hagkvæmni þegar kemur að þessu og þess vegna held ég að það (Forseti hringir.) sé svo mikilvægt að borgarlína sé hluti af lausninni þegar kemur að samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.