Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:21]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og flutning hér á nefndaráliti fyrir samflokkskonu hans úr Samfylkingunni. Ég verð nú að segja að það er alltaf gaman að hlusta á stjórnarandstæðinga hafa miklar áhyggjur af því hvernig okkur líður í stjórnarmeirihlutanum og hvað við erum að fjalla um þar, en mér finnst tvískinnungurinn samt töluverður. Það er kannski gott að hv. þingmaður fór yfir það sem stendur neðst í nefndaráliti 1. minni hluta úr allsherjar- og menntamálanefnd, að það er hvatt til þess að þetta frumvarp verði samþykkt og að ráðherra hraði vinnu við heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi fjölmiðla. Um þetta getum við verið sammála. Mér sýnist bara þau nefndarálit sem birst hafa og umræður verið í þá átt að fólk leggi til að þetta frumvarp sem hér um ræðir verði samþykkt.

Ég held það sé líka rosalega mikilvægt fyrir hv. þingmenn að átta sig á því að hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi sem framlengingu, bráðabirgðaákvæði til að framlengja þessa styrki, vegna þess að það er ekki komin þessi heildarmynd sem við köllum jú öll eftir. Þannig að halda að með því sem við segjum í nefndaráliti sé einhvern veginn verið að draga úr fyrirsjáanleika á frumvarpi sem er til bráðabirgða — þetta er bráðabirgðalausn, það var öllum ljóst. Ráðherra lagði skýra áherslu á það þegar hún mælti fyrir því.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er: Telur hv. þingmaður, og þá þingflokkur Samfylkingarinnar, að vera RÚV á fjölmiðlamarkaði, ekki bara auglýsingamarkaði, RÚV fjölmiðill, þessi öflugi fjölmiðill sem við eigum öll saman, með sínar tvær til þrjár útvarpsstöðvar og tvær sjónvarpsstöðvar alla vega og vefinn og annað, hafi engin áhrif á fjölmiðlamarkaðinn yfir höfuð? Þykir þingflokki Samfylkingarinnar það fyrirkomulag eðlilegt sem við erum með í dag varðandi útvarpsgjaldið og hvernig það hækkar miðað við fjölgun kennitalna og annað? (Forseti hringir.) Er það það sem þingflokkurinn vill halda í?