Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var einmitt að gagnrýna það að stuðningur við fjölmiðla hefur á undanförnum árum byggst á svona bráðabirgðaákvæðum, það hefur ekki verið þessi fyrirsjáanleiki sem hefur verið kallað eftir og er einmitt forsenda þess að tryggja gott rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Þó að við styðjum framlengingu á þessum stuðningi, þó það nú væri, höfum við bent á að hér er meiri hlutinn í nefndinni að lýsa ákveðnum sjónarmiðum sem stangast á við þau sjónarmið sem hafa komið frá hæstv. menningarráðherra og hennar viðleitni til að byggja upp sterkt styrktarkerfi fyrir einkarekna fjölmiðla til lengri tíma eftir fyrirsjáanlegum leikreglum.

Varðandi Ríkisútvarpið þá gefur það augaleið að staða Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði hefur talsverða þýðingu fyrir einkarekna fjölmiðla. Það auðvitað breytir myndinni. Það er hins vegar ekki þar með sagt að við getum farið að taka undir það að Ríkisútvarpið og umsvif þess séu rótin að rekstrarvanda einkarekinna fjölmiðla. Mér þykir það algjör vitleysa að tala þannig eins og stundum er gert.