Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:28]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti, hv. þingmenn og kæra þjóð. Hvað er raunverulega vandamálið? Það skal ég segja ykkur. Haustið 2018 hafði samband við mig mjög ungur maður sem heitir Snorri Björnsson. Hann sagði við mig: Viltu koma í podcast? Ég sagði: Podcast, hvað í ósköpunum er podcast? Jú, ég tek viðtal við þig og set það á netið. Og ég sagði: Já, já, ég er alveg til í það, ég veit að það hlustar enginn á það hvort sem er. Ég fór til hans og það endaði með því að ég sat hjá honum í tvo klukkutíma. Í nóvember setti hann þetta á netið og ég get sagt ykkur það að samtals á YouTube og hjá honum þá fékk ég yfir 20.000 hlustanir.

Sjáið þið til, í dag er podcast út um allt og það eru alls konar stöðvar. Dóttir mín er 16 ára, hún kann alla texta utan að sem hún heyrir í útvarpinu. Það er í eina skiptið sem hún hlustar á útvarp, þegar hún er í bílnum hjá mér. Hún kann alla texta, bæði við gömul og ný lög. Ég segi: Hvar í ósköpunum heyrir þú öll þessi lög sem þú kannt? Ja, ég veit það eiginlega ekki, það er svona á TikTok og eitthvað. Þetta er vandamálið. Fólk er hætt að hlusta á hina venjulegu fjölmiðla. Það er verið að tala um það að fjölmiðlar hafi lagt upp laupana. Af hverju? Vegna þess að það er ekkert auglýsingagildi í því lengur að auglýsa. Ég hef margsinnis auglýst heilsíðuauglýsingar í blöðum sem ýmist hafa hætt eða eru á vonarvöl og það er ekkert auglýsingagildi — heilsíður, baksíður. Sjáðu til. Þetta er hið raunverulega vandamál að fólk er hætt að hlusta og fylgjast með hinum hefðbundnu fjölmiðlum sem við þekkjum frá því við vorum yngri.

Ég var að tala við Rás 2 nýlega. Þeir sögðu: Með því að auglýsa á Rás 2 nærðu til 125.000 Íslendinga í hverri viku. Daglega hlusta tæplega 100.000 Íslendingar á Rás 1 og Rás 2. Um 40.000 Íslendingar hlusta á hádegisfréttir RÚV á hverjum einasta degi. Þarna er auglýsingagildið. Við sem erum í stjórnmálum og ætlum að fara í framboð eftir tvö ár, vonandi ekki fyrr, þurfum þá að hafa aðgang að þessum 100.000 manns. Og hvernig gerum við það ef RÚV verður tekið af auglýsingamarkaði? Þá höfum við ekki aðgang að þessum 100.000 eða 125.000 sem eru að hlusta á RÚV í dag. Ég segi því: Í guðanna bænum finnið út úr því hvernig við getum eflt frjálsa fjölmiðla vegna þess að það eru 29 útvarpsstöðvar á spilaranum og Bylgjan og RÚV eiga 80% af hlustuninni og hitt skiptist á milli 25 eða 26 mismunandi útvarpsstöðva sem hafa nánast enga hlustun.

Alþingishúsið var tekið í notkun 1881 og ég held að ég geti fullyrt að á þeim tíma voru notuð kerti og olíulampar til að hafa ljós. Síðan breyttist þetta smám saman og allt í einu voru komnar rafmagnsperur. Þá fóru kertagerðarmenn og olíulampaframleiðendur í fýlu. En það þýðir ekkert að fara í fýlu þegar umhverfið breytist. Eins er með þetta, frjálsir fjölmiðlar eru raunverulega að missa af lestinni. Og hvernig ætla þeir að redda sér út úr því? Það veit ég ekki. Við verðum að styrkja íslenska þáttagerð.