Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Bergþór Ólason) (M):

Frú forseti. Við ræðum hér enn einu sinni tímabundnar aðgerðir til stuðnings við einkarekna fjölmiðla. Ég hef leyft mér að lýsa þessu sem krampakenndum viðbrögðum stjórnvalda í einhvers lags samviskubiti yfir því hversu treglega hefur gengið að laga raunverulega rekstrarskilyrði einkarekinna miðla. Sambærilegt mál hefur verið lagt fram ítrekað. Núna er upphæðin eilítið hærri heldur en í fyrra en efnisatriðin mjög sambærileg. Það getur ekki verið markmiðið að nálgast mál til lengri tíma með þessum hætti. Því er vissulega flaggað hér að núna, eftir eitt og hálft kjörtímabil, að sjötta þingi þessarar ríkisstjórnar afloknu, ætli menn að fara að nálgast málin með einhverjum skynsamlegum hætti.

Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem ég rita undir sem fulltrúi í þeirri nefnd. Ég ætla að leyfa mér að fara í gegnum það, það er stutt, en bæta síðan við nokkrum athugasemdum í lokin.

Annar minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar telur það vekja furðu að nú á miðju öðru kjörtímabili sitjandi ríkisstjórnar, á sjötta þingvetri hennar, sé staðan enn sú að árleg krampakennd viðbrögð stjórnvalda séu það sem einkareknum fjölmiðlum er boðið upp á, samanber það frumvarp sem nú er til meðferðar og er ætlað að framlengja tímabundið styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla. Enn er leitast við að fresta því að taka á vandanum í stað þess að leysa hann. Líkja má þessu frumvarpi við árlega afsökunarbeiðni stjórnvalda fyrir að takast ekki á við vandann en reyna heldur að stinga dúsu upp í einkarekna fjölmiðla sem á sama tíma eiga að viðhafa aðhald gagnvart þeim sömu stjórnvöldum.

Ráðherra og ríkisstjórn vísa reglulega til ágætrar skýrslu frá 2018 um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla sem unnin var af nefnd undir formennsku Björgvins Guðmundssonar. Í skýrslu nefndarinnar voru settar fram sjö tillögur til að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla en svo bara gerist ekki neitt eða alla vega mjög fátt og lítið. Til viðbótar þeim tillögum telur 2. minni hluti nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir sem draga úr stjórnunarlegu flækjustigi og kostnaði fjölmiðla við annað en kjarnastarfsemi sína. Í því sambandi má m.a. nefna kostnað vegna umsvifa fjölmiðlanefndar sem rétt væri að leggja niður og finna verkefnum hennar, þeim sem ekki eru óþörf, annan farveg.

Fleiri atriði er vert að skoða, svo sem niðurfellingu tryggingagjalds að fullu eða að hluta, stöðu Ríkisútvarpsins á markaði, bæði hvað varðar auglýsingar og framleiðslu efnis, og það að jafna stöðu innlendra miðla gagnvart erlendum.

Staða og umfang Ríkisútvarpsins verður að vera hluti af heildarendurskoðun fjölmiðlamarkaðar á Íslandi. Litlar líkur eru á raunverulega bættri stöðu einkarekinna fjölmiðla á meðan Ríkisútvarpið hefur það gríðarlega forskot sem núverandi regluverk og tekjumódel hefur tryggt stofnuninni.

Að mati 2. minni hluta er mikilvægt að hverfa frá því fyrirkomulagi sem viðhaft hefur verið um árabil og bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla með almennum hætti, með áherslu á einföldun rekstrarumhverfis og skattalegar aðgerðir en síður með beinum greiðslum úr ríkissjóði. Á meðan ekki hefur verið farið í heildarendurskoðun á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla styður 2. minni hluti þessa leið þrátt fyrir allt, en vonar að þetta verði í síðasta skipti sem þessi krampakenndu viðbrögð ríkisstjórnarinnar verða viðhöfð.

Að framangreindu virtu leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt.

Það liggja hér ýmsar tillögur fyrir þinginu. Ég vil sérstaklega fá að nefna eina þeirra sem ég mælti fyrir fyrir nokkru síðan og er nú til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd. Hún er að almenningi, skattgreiðendum, verði gert kleift á hverju ári að ráðstafa hluta nefskattsins, hluta útvarpsgjaldsins eins og það er kallað, á skattskýrslu ársins til þess miðils sem viðkomandi hugnast best að njóti þess stuðnings. Það vakti ánægju mína að hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir virtist tala á þeim nótum að henni hugnaðist sú aðgerð og nálgun ágætlega í viðtali á Útvarpi Sögu fyrir nokkrum dögum síðan og ég er vongóður um að þetta mál komist til efnislegrar meðferðar hér í þingsal áður en þingi lýkur. Ég hvet þá þingmenn sem eru að hlusta núna til að kynna sér innihald þess máls og ég vona að undirtektir verði góðar.

En þetta er bara púsl í stóru myndina. Stóru myndina verður að laga því heildaráhrif Ríkisútvarpsins eru svo yfirgengileg, leyfi ég mér að segja, og ruðningsáhrif þeirrar stofnunar með þá yfirburði sem hún hefur hvað fjármögnun varðar og getu þar af leiðandi á flestum sviðum. Ég held að það geti ekki verið hollt og geti ekki verið markmið í lýðræðissamfélagi að setja einkarekna miðla í þá stöðu að vera með betlistaf í hendi árlega á sama tíma og þeim er ætlað að sýna aðhald gagnvart þeim stjórnvöldum sem síðan úthluta þeim fjármunum árlega. Það er gríðarlega mikið til þess vinnandi að komast út úr því kerfi sem núna er. Og af því að umræðan kemur reglulega upp um að það sé vandkvæðum bundið að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði þá vil ég kasta hér inn í þá púllíu, þótt það sé ekki til umræðu hér, að skoðuð verði sú leið sem hefur verið nefnd, og er m.a. nefnd, að ég held, í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um þetta mál, að auglýsingatímar Ríkisútvarpsins verði einhvers lags fasti, á föstum verðum, og söludeildin verði víkjandi. Tekjur af þessu gætu gengið í einhvers lags sjóð, samkeppnissjóð, sem einkareknir fjölmiðlar sæktu í þannig að þær tekjur væru þá að ganga til stuðnings miðla til framleiðslu efnis, frétta og jafnvel annars konar efnis. En við þurfum alla vega að einsetja okkur það að nálgast málið heildstætt, stokka þetta umhverfi allt upp, því að skilyrði einkareknu miðlanna eins og þau eru í dag eru allt að því óbærileg. Regluverkið eins og það liggur fyrir — ég ætla ekki að setja tíma í að fara í gegnum gagnrýni á hvert og eitt þeirra skilyrða sem horft er til við úthlutun styrkja og hversu ójafnt þeir dreifast á milli miðla, þakið sem orsakar það að þau fyrirtæki sem stunda mesta framleiðslu á frumfréttum fá minnstan stuðning per starfsmann og þetta allt saman. Allt er þetta hálfómögulegt. Við verðum að einbeita okkur að því að ná fram lagfæringum með almennum aðgerðum, skattalegu hagræði, hvort sem það er í tryggingagjaldinu eða virðisaukaskatti, við þurfum að minnka umsýslukostnaðinn, leggja af þessa fjölmiðlanefnd og færa þau verkefni sem ekki eru óþörf annað og þar fram eftir götunum. Þannig munum við ná að bæta skilyrði einkarekinna fjölmiðla á Íslandi í stað þess að standa í þessum krampakenndu viðbrögðum árlega hér eftir eins og hingað til.