Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:15]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil ég spyrja hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar út í setningu í nefndaráliti meiri hlutans sem hún fór aðeins yfir í sinni ræðu. Þar stendur á blaðsíðu 3, með leyfi forseta:

„Til frambúðar er mikilvægt að horfið verði frá beinum styrkveitingum ríkisins til fjölmiðla enda stangast það á við eitt af meginhlutverkum fjölmiðla sem er að veita stjórnvöldum aðhald.“

Ég staldra aðeins við þessa setningu vegna þess að mér finnst hún þá komast að þeirri niðurstöðu að núverandi fyrirkomulag, sem meiri hlutinn er að framlengja, stangist á við meginhlutverk fjölmiðla sem er að veita stjórnvöldum aðhald. Á að skilja þetta þannig að núverandi fyrirkomulag meiri hluta í styrkveitingum til fjölmiðla vinni í raun gegn þeim markmiðum sem fjölmiðlar eiga að sinna sem er að veita stjórnvöldum aðhald? Ég fæ ekki annað lesið út úr þessari setningu en nákvæmlega það. Í raun mætti þá segja þetta um allt annað sem nýtur beinna styrkja frá stjórnvöldum, öll önnur t.d. félagasamtök sem veita stjórnvöldum vissulega aðhald en njóta samt styrkja frá stjórnvöldum. Þá erum við að tala um Samtökin '78 eða jafnvel stofnanir á vegum ríkisins sem hafa það hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald sem eru á beinum fjárframlögum frá ríkinu eins og umboðsmaður Alþingis eða dómstólar eða aðrir.

Mín spurning er sem sagt þessi: Telur meiri hluti nefndarinnar það virkilega vera þannig að þetta fyrirkomulag eins og því er háttað núna stangist á við eitt af meginhlutverkum fjölmiðla sem sé að veita stjórnvöldum aðhald?