Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það hafa einmitt fleiri hnotið um þessa setningu og ég er mjög ánægð með að hún fái hér athygli. Ég verð þó að minna hv. þingmann og þingheim á það sem stendur líka þarna fyrir framan. Svo að það sé öllum ljóst þá er það markmið þessarar ríkisstjórnar að efla starfsemi einkarekinna fjölmiðla og styrkja lýðræðishlutverk fjölmiðla.

Virðulegur forseti. Ég er að vísa hér í nefndarálitið.

„Því telur meiri hlutinn mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að styðja við einkarekna fjölmiðla, en leitist við að gera það með óbeinum hætti, svo sem með því að fjölga tekjuöflunarmöguleikum þeirra eða með skattalegum ívilnunum.“

Svo kemur sú setning sem hv. þingmaður vísar hér í.

„Til frambúðar er mikilvægt að horfið verði frá beinum styrkjum ríkisins til fjölmiðla enda stangast á við eitt af meginhlutverkum fjölmiðla sem er að veita stjórnvöldum aðhald.“

Það hefur auðvitað margoft verið bent á það í umræðunni að það er alltaf sú hætta fyrir hendi. Þess vegna held ég að það sé miklu betra fyrirkomulag til lengri tíma litið að við séum með umgjörð sem gerir það að verkum að rekstrarumhverfi fjölmiðla sé hér í lagi og sá stuðningur sem ríkið veitir fjölmiðlum sé í gegnum fyrirsjáanlegar skattendurgreiðslur eða annars konar ívilnanir sem þeir kunna að þurfa á að halda vegna þeirra krafna sem við setjum einmitt á fjölmiðla.

Í nefndaráliti frá Samfylkingunni, frá hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, því að ég veit að þau hnutu líka um þessa setningu þar, þá tala þau einmitt um mikilvægi fyrirsjáanleika og hv. þingmaður fór þá að vísa í ýmiss konar félagasamtök. Ég ætla þá að fá að nota tækifærið til að segja að ég held að það fyrirkomulag sem við höfum því miður, sem þingheimur, endurreist hér á hverju ári þegar við afgreiðum fjárlögin með alls konar styrkveitingum til alls konar félagasamtaka úti í bæ sem eru öll örugglega að gera góða hluti, sé ekki gott fyrirkomulag. Það sé til þess fallið einmitt að viðkomandi félagasamtök sinni ekki sínu hlutverki eins og best væri á kosið. Þannig að ég tel alltaf eðlilegra að slíkar styrkveitingar (Forseti hringir.) séu í gegnum einhvers konar samkomulag, rammasamning um að viðkomandi félagasamtök séu að veita einhverja þjónustu, hafi eitthvert hlutverk og fái greiðslur í samræmi við það (Forseti hringir.) en sé ekki einmitt ákveðið á hverju ári í gegnum fjárlög, nú eða styrkir til fjölmiðla á hverju ári í gegnum Alþingi og svo mögulega (Forseti hringir.) ef ráðherra hefði eitthvað með það að segja hvernig úthlutunarreglurnar væru.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)