Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta áhugaverða andsvar. Ég held að ég verði að láta þann kafla bara góðan heita og snúa mér að öðru sem fékk svolítið pláss í ræðu hv. þingmanns sem var hverfulleiki lýðræðisins og mikilvægi fjölmiðla í lýðræðissamfélagi. Þar er ég algerlega sammála hv. þingmanni. Hlutverk fjölmiðla í lýðræðissamfélagi er alveg gríðarlega mikilvægt. Það eru fleiri hlutir sem hafa áhrif á starfsumhverfi og frelsi fjölmiðla heldur en geta þeirra til að fjármagna sig. Eitt af því er ótti við ofsóknir eða einhvers konar afleiðingar af því að vinna vinnuna sína. Það er eitthvað sem við höfum ítrekað orðið vitni að hér í íslensku þjóðfélagi og svo sem sætt þó nokkrum dómum Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir.

Það virðist vera að dómstólar séu aðeins að gyrða sig í brók varðandi fjölmiðlafrelsi og málfrelsi á Íslandi en á sama tíma virðast stjórnvöld, og þá sér í lagi framkvæmdarvaldið, ekki vera að standa sig jafn vel og í raun fara aftur á bak. Hér er ég t.d. að vísa í lögbann sem sett var á Stundina tveimur vikum fyrir kosningarnar 2017 sem engin viðbrögð voru við í kjölfarið. Svo er ég að tala um mál sem hefur verið mikið í deiglunni núna, mál sem formaður flokks hv. þingmanns hefur blandað sér töluvert í, og það er lögreglan að misnota löggjöf, sem á að vernda friðhelgi sér í lagi kvenna en bara almennt fólks á internetinu gagnvart því að myndum af því sé dreift í óleyfi o.s.frv., gegn fjórum blaðamönnum sem segja frá skrímsladeild Samherja — skæruliðadeild Samherja, svo að ég hafi þetta nú rétt. Finnst hv. þingmanni það ekki áhyggjuefni að það sé enn þá staðan í dag að fjórir blaðamenn hafi stöðu sakbornings á grundvelli ákvæðis sem var aldrei ætlað að ná yfir vinnu blaðamanna?