Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður getum bara hlakkað til næsta þings þegar við höfum enn meiri tíma saman til að ræða einmitt um fjölmiðla og þá vonandi get ég gert mig skiljanlega fyrir hv. þingmanni um framtíðarsýn mína á þetta efni. En ég bara ítreka enn og aftur: Ég held að það sé ákveðin einfeldningsháttur að halda því fram að nokkrar milljónir í styrkveitingar til einstakra miðla séu það sem skipti öllu máli um rekstrarumhverfi fjölmiðla. Það er ekki svoleiðis. Fjölmiðlar hafa sagt það sjálfir og það sögðu umsagnaraðilarnir okkar: Það þarf heildstæðar lausnir.

Hv. þingmaður spyr: Af hverju eru þær ekki komnar hér fram? Ég get alveg viðurkennt það, ég myndi gjarnan vilja sjá að við næðum saman um það. En hv. þingmaður þekkir það líka jafn vel og ég hvernig umræðan er og til að mynda þegar við fengum gesti í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem sumir hverjir þóttust vera með lausnina á reiðum höndum. Það er kannski ekki endilega auðvelt að framkvæma þá lausn sem viðkomandi aðilar voru með eða þá að gestirnir voru bara engan veginn sammála um það hvaða lausnir það væru. Þannig að það er auðvitað sú áskorun sem við stöndum frammi fyrir að sjá þessa heildarmynd og mér finnst hæstv. ráðherra hafa nálgast það ágætlega og hefur hér boðað stefnu í fjölmiðlum þar sem þarf að horfa á alla þessa þætti og þess vegna fannst mér t.d. mjög mikilvægt, virðulegur forseti að það kæmi fram í nefndarálitinu okkar, t.d. afstaða okkar gagnvart auglýsingadeild RÚV þó að sumum finnist það ekki eiga heima hérna því þetta er auðvitað aftur bráðabirgðaframlenging á ákveðnu umhverfi sem er bara eitt púsl í stóru myndinni. En ég fer ekki ofan af því að ég er enn þá þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegra, ég held að það sé sterkara fyrir lýðræðið, að stuðningsumhverfi fyrir fjölmiðla sé í gegnum skattkerfið en ekki með beinu styrkveitingum.