Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[16:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Við ræðum hér um frumvarp sem auðveldlega er hægt að lýsa sem allt of lítið, allt of seint, aftur. Skelfileg staða einkarekinna fjölmiðla hefur löngum verið ljós, hún verður bara verri og þetta dugar alls ekki til. Gríðarlegur atgervisflótti er úr greininni, lítil reynsla er eftir í greininni og staðan er alls ekki viðunandi. Og þetta frumvarp, þó að auðvitað geri það eitthvert gagn, er alls ekki nóg til þess að ráðast að þeirri stöðu sem nú er uppi.

Að því sögðu vil ég ræða um annað atriði sem ég ræddi í andsvörum við hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar rétt í þessu og það snýr að öðrum ógnum sem fjölmiðlar á Íslandi búa við, þeim ógnum að vera gerður að sakborningi, vera tekinn í yfirheyrslu, sæta lögbanni, vera dreginn fyrir dómstóla í meiðyrðamálum sem eiga sér enga von, einungis til að sóa tíma og peningum fjölmiðla. Þetta eru allt atriði sem gera fjölmiðlaumhverfið á Íslandi mjög illvígt gagnvart fjölmiðlafólki, gagnvart blaðamönnum, t.d. rétt fyrir kosningarnar 2017 þegar lögbann var sett á umfjöllun Stundarinnar um fjárhagsleg mál forsætisráðherra þess tíma í aðdraganda hrunsins. Og ég verð að bregðast við orðum hv. formanns allsherjar- og menntamálanefndar sem sagði í andsvari við mig um þetta mál, þegar ég spurði hvort hún hefði ekki áhyggjur af því að þetta hefði áhrif á starfsumhverfi fjölmiðla, með leyfi forseta:

„… ég held nefnilega að það sé mjög hættulegt lýðræðinu þegar stjórnmálamenn stíga inn í umræður og regluverk sem við höfum búið til. Nú var lögbannið ekki á borði ráðherra eða þingmanna, og ætti ekki að vera það, heldur hjá fulltrúum sem eiga að fylgja þeim lögum sem hér eru. Og ef eitthvert fyrirtæki úti í bæ, eins og ég held að ég muni nú rétt í þessu svokallaða lögbannsmáli, fer fram á lögbann á forsendum og sýslumaður metur það sem svo að það hafi verið rétt, þá held ég að við hér inni hljótum að þurfa að treysta þeim sem eru að vinna eftir lögunum sem við hér setjum.“

Nú finn ég mig knúna til að leiðrétta aðeins minni hv. þingmanns vegna þess að dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að lögbannið hefði verið ólögmætt og kváðu raunar svo fast að orði að með því að setja á þetta ólögmæta lögbann hefði í raun verið komið í veg fyrir mikilvæga lýðræðislega umræðu sem gæti hafa haft áhrif á lýðræðislegar kosningar. Þetta er óafturkræfur skaði sem varðar þetta ólögmæta lögbann. Við kölluðum sýslumann til vegna þess að það er okkar hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og hvernig það framkvæmir reglurnar sem við setjum. Þannig að ég verð að lýsa mig algerlega ósammála skoðun hv. formanns allsherjar- og menntamálanefndar sem segir að það sé hættulegt lýðræðinu þegar stjórnmálamenn stíga inn í umræður og regluverk sem við höfum búið til. Það er auðvitað bara okkar hlutverk að skoða hvort reglurnar séu að virka og hvort það sé verið að fara eftir þeim og hvort framkvæmdarvaldið sé að framkvæma reglurnar á þann hátt sem löggjafinn sá fyrir sér að þær skyldu framkvæmdar. Löggjafinn sá ekki fyrir sér að lögbann yrði sett á lýðræðislega umfjöllun fjölmiðla rétt fyrir kosningar. Það eru ekki lögin og það hafa dómstólar staðfest. Þannig að þetta er ekki bara mín skoðun, þetta er bara staðfestur dómur dómstóla.

Auðvitað átti að stíga þarna inn í og breyta þessu regluverki vegna þess að það var alveg augljóst að sýslumaður hafði engan skilning á tjáningarfrelsinu og mikilvægi þess þegar hann var að meta sína ákvörðun um hvort lögbann uppfyllti skilyrði eða ekki. Hann tók ekkert tillit þess. Það er til opinn fundur hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem kemur mjög skýrt fram að hann hafði ekki hugmynd um að tjáningarfrelsi hefði nokkuð með lögbann á umfjöllun fjölmiðla rétt fyrir kosningar að gera. Við hjá Pírötum lögðum til að ákvörðun um lögbann á hendur fjölmiðlum yrði sett í hendur dómstóla, vegna þess að þar er a.m.k. komin mjög skýr og góð þekking á því hversu mikilvægt tjáningarfrelsið er í lýðræðislegu samfélagi og hversu alvarlegt það er að skerða lýðræðislega umræðu og skerða upplýsingagjöf til almennings í aðdraganda kosninga. Það er fyrsta málið sem ég nefni vegna þess að það kallaði ekki á nein teljandi viðbrögð. Það var ekki í neinum forgangi hjá þessari ríkisstjórn að bregðast við þeirri algjörlega óafsakanlegu stöðu að mögulega hafi þetta lögbann haft áhrif á úrslit kosninga, þetta ólögmæta lögbann. Það er fáránlegt, virðulegi forseti, að ríkisstjórn sem segist vilja styrkja lýðræðislega fjölmiðla hafi ekkert gert svo árum skipti. Svo kom tillaga sem gekk út á að lögbönn fengju einhvers konar flýtimeðferð fyrir dómstólum ef til stæði að áfrýja því sem sýslumaður svo ákveður. Það hefur svo sem ekki reynt á þetta síðan þá. Ég veit ekki hvort þetta dugi til en það var a.m.k. ekki í neinum forgangi að laga þetta. Það er algerlega augljóst og það fannst mér mjög spes, svo að ekki sé meira sagt.

Hvað varðar hitt málið, þá stöðu að fjórir blaðamenn sem fluttu fréttir af því hvernig starfsmenn Samherja hafa leynt og ljóst unnið að ófrægingarherferð gagnvart öllum sem þau telja ógn við orðspor og gróða síns fyrirtækis, hvernig þeir blaðamenn eru allt í einu orðnar sakborningar en ekki þau sem voru að njósna um fólk, ekki þau sem voru að leggja á ráðin um hvernig þau ættu að hafa áhrif á prófkjör Sjálfstæðisflokksins eða á kjör á formanni Blaðamannafélags Íslands. Þau sæta engum rannsóknum fyrir einhvers konar brot gegn friðhelgi einkalífs fólksins sem þau voru að njósna um; hvernig bíla það ætti o.s.frv. Þau eru ekki til neinnar skoðunar, meira að segja þótt þau hafi lagt á ráðin til að reyna að koma í veg fyrir að Jóhannes Stefánsson uppljóstrari gæti borið vitni í máli gegn Samherja. Það er ekki til rannsóknar hjá lögreglunni. Hvað er til rannsóknar hjá lögreglunni? Fjórir blaðamenn sem liggja undir grun um að hafa brotið gegn ákvæði þar sem er sérstaklega tekið fram að vinna blaðamanna falli ekki undir það ákvæði.

Nú er þetta mér mjög skylt og þetta skiptir mig miklu máli vegna þess að ég flutti nefndarálitið í því máli og ég tryggði það alveg sérstaklega að þetta undanþáguákvæði væri sett inn í þessi lög sem lögreglan er núna að nota til að gera fjóra blaðamenn að sakborningum. Þetta samþykkti allur þingheimur. Auðvitað á það að vera okkur áhyggjuefni ef lögreglan er að misnota lagaákvæði sem voru sett til að vernda friðhelgi einkalífs, sér í lagi kvenna á internetinu, til að gera blaðamenn sem segja okkur fréttir að sakborningum. Auðvitað eigum við að láta í okkur heyra. Það stóð ekki á skoðunum hv. formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann var þess fullviss að lögreglan væri að gera allt rétt í þessu máli og að blaðamennirnir hefðu örugglega eitthvað að fela. Ef það er ekki að taka afstöðu til máls sem er í gangi þá veit ég ekki hvað.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði, með leyfi forseta:

„… ef við teljum að lögreglan sé að beita lögum með öðrum hætti en löggjafinn ætlaðist til þá breytum við lögunum, þá skýrum við lögin frekar. Við blöndum okkur ekki inn í lögreglurannsóknir eða dómsmál eða annað þess háttar.“

Þá verð ég bara að segja að lögin eru kýrskýr. Það er vandamálið. Við þurfum ekki að breyta lögunum. Það er verið að misnota lögin, það er vandamálið. Þess vegna er ég að tala um þetta, vegna þess að lögin sem voru sett, þau eru hluti af löggjöf sem snerist um að vernda kynferðislega friðhelgi fólks á internetinu. Þetta var barátta gegn stafrænu kynferðisofbeldi og það sem flaut með var einmitt að þú átt ekki að geta brotist inn í tölvur hjá fólki, fundið einhver einkamálefni og notað það til að koma höggi á það eða einhvern veginn kúga það eða ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er eitt ákvæði og það er mjög skýrt sett fram að þetta ákvæði undanskilji vinnu blaðamanna. Það kemur skýrt fram í nefndarálitinu. Það er undanþága sem talar um opinber eða einkamálefni og það er alveg augljóst af nefndarálitinu að þarna er átt við vinnu blaðamanna sem taka við upplýsingum, hvort sem þær eru fengnar á lögmætan hátt eða ekki. Það er algjörlega skýrt. Þannig að það þarf ekki að breyta þessum lögum en það þarf eitthvað að gera þegar lögreglan misnotar vald sitt með þessum hætti til þess að hafa kælandi áhrif á fjölmiðlaumfjöllun í landinu. Það er eitthvað sem ég tel að hafi gríðarlega mikil áhrif á fjölmiðlaumhverfið á Íslandi, hversu auðvelt það er að verða fyrir afleiðingum ef þú ert að segja fréttir af voldugasta fólkinu í landinu, hvort sem það er forsætisráðherra korter í kosningar eða Samherji með öll sín mál. Og það er óhugnanlegt, virðulegi forseti, að þetta hafi ekki kallað á meiri viðbrögð, hvorki þá né nú.