Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:17]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en ég verð að lýsa vonbrigðum með að hún svaraði ekki spurningunni sem ég bar upp og ég var að vonast til þess að hún ætlaði sér að svara þar sem hún bað um orðið um leið og ég bar hana upp. Það er varðandi það hvort þetta hafi verið sameiginlegur skilningur þegar stjórnarsáttmálinn var saminn og allt þetta um að efla fjölmiðla og styrkja og annað, að það væri sameiginlegur skilningur allra flokka að það stæði til að víkja frá styrkjafyrirkomulaginu. Það er sem sagt spurningin og ég ítreka hana.

Annað sem þingmaðurinn nefnir er auðvitað atriði sem við erum að ræða hérna og erum búin að ræða fram og til baka. Það er enginn bara að tala um styrki. Ástæðan fyrir því að það verður áhersla á það í þessari umræðu núna, alla vega hjá mér, er að þetta er sláandi setning sem kemur fram um að það eigi að víkja með öllu frá beinum styrkjum. Við erum öll að tala um að það þurfi margir þættir að koma til en ríkisstjórnin er ekkert að koma með þá. Það er ekki verið að leggja til neitt annað en beina styrki til fjölmiðla. Þannig að þetta skýtur svolítið skökku við.

Ég ætla bara að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns. Annars getum við svo sem rætt þetta hérna endalaust en umræða í 2. umr. getur líka verið endalaus (Gripið fram í.)og ég bara tek boðinu í þann dans ef svo ber undir.