Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[17:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni yfirferðina í ræðu sinni hér áðan af því að það skiptir máli að hafa nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd sem hafa reynslu af fjölmiðlum þegar er verið að afgreiða mál af þessu tagi til þess m.a. að hjálpa okkur að plokka í sundur þannig að við sjáum almennilega hvað stendur á milli línanna í því sem frá meiri hlutanum kemur.

Mig langar aðeins að ræða hér setningu sem oft hefur verið velt upp í þessari umræðu varðandi það að meiri hlutinn telji að til frambúðar sé mikilvægt að hverfa frá beinum styrkveitingum ríkisins til fjölmiðla enda stangist það, að sögn meiri hlutans, á við eitt af meginhlutverkum fjölmiðla sem er að veita stjórnvöldum aðhald. Hvað er verið að segja með þessu? Það eru svo ótalmargir túlkunarmöguleikar í boði. Er verið að segja að allar einingar sem veita stjórnvöldum aðhald séu ótrúverðugar ef þær fá pening frá ríkinu í formi beinna styrkja, séu vísar til að vera ekki nógu hvassar í gagnrýni? Er þá ekkert að marka Landvernd eða Samtökin '78 af því að þau fá styrki frá ríkinu? Nei, ég held nefnilega ekki. Ég held að það sé alveg að marka þau samtök vegna þess að þau veita aðhald á sínu sviði. Af hverju ætti öðru að gegna með fjölmiðla? Eða er kannski með þessu verið að hvísla því að þeim sem vilja hag RÚV sem mestan, að fréttastofa RÚV sé ótrúverðug? Er það hundaflautan sem er í gangi? Vegna þess að fréttastofa RÚV sé á fjárlögum, með nefskattinn sem kemur í gegnum fjárlög, þá sé kannski ekkert að marka þá fréttastofu sem er það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill oft vera láta. Getur hv. þingmaður hjálpað mér að skilja hvað meiri hlutinn gæti verið að fara með þessu gagnvart sjálfstæðum fjölmiðlum í landinu?