Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

fjölmiðlar.

543. mál
[18:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég er alltaf tilbúinn að skoða nýjar leiðir. Ég ákvað að fara út í stjórnmálin m.a. vegna þess að mér fannst vera allt of lítið hér inni í þessum sal hugsað um nýjar leiðir. Þarf að breyta Ríkisútvarpinu? Miðað við það sem ég sagði hér áðan um hvernig allt er að breytast þá þarf Ríkisútvarpið að breytast eins og allir aðrir. En hvernig ætlum við að gera það? Við skulum vonandi finna leiðir í sátt og samlyndi milli allra flokka til þess að tryggja að við séum með öflugt Ríkisútvarp en kannski ekki í þeirri mynd sem það er í dag.

Ég veit að faðir minn heitinn sat í útvarpsráði um ára eða áratuga skeið og það breyttist dálítið á þeim tíma sem hann sat í því. En heimurinn hefur breyst meira á undanförnum fimm árum en á öllum þeim árum sem hann sat í því. Þannig að ég held við þurfum svo sannarlega að gera breytingar. Ég held líka að við þurfum að hugsa hvernig við styðjum enn betur við íslenska þáttagerð, hvort sem það er afþreyingarefni, kvikmyndir eða fréttaþættir. Við þurfum að hugsa: Hvernig styðjum við betur við slíkt? Eigum við frekar að styðja við það t.d. en ameríska sjónvarpsþætti sem eru teknir hérna upp? Þetta þurfum við að spyrja okkur um. Við erum að setja peninga í þessa hluti. Hvernig viljum við forgangsraða? Við verðum að taka ákvarðanir um það. Ég vil helst sjá okkur ná sátt milli allra flokka þegar kemur að slíkum stórum breytingum.