154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

rekstur lögreglu á Íslandi.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður byrjaði hér með það sem virðist ætla að verða vikuleg ræða um að efnahagsmálin séu í einhverju uppnámi en við Íslendingar stöndum í efnahagsmálum flestum þjóðum framar með meiri hagvöxt, betra atvinnustig og hæstu meðallaun í heimi. Hér á Íslandi er staða efnahagsmála um margt öfundsverð, skuldastaða ríkisins hófleg o.s.frv., en við glímum vissulega við verðbólgu og það er alvörumál sem þessi ríkisstjórn hefur í forgrunni hjá sér og ég trúi því að við munum ná árangri og að vextir taki að lækka, enda eru vísbendingar um að t.d. í peningastefnunefnd Seðlabankans sé sterk rödd fyrir lækkun vaxta.

Að lögreglunni. Þessi ríkisstjórn, eins og forverar hennar, leggur mikla áherslu á styrk lögreglunnar í landinu. Á undanförnum árum hafa átt sér stað gríðarlega miklar breytingar á mörgum sviðum. Við getum tekið kynferðisbrotamálin sem sérstakt dæmi þar sem við fjármögnuðum betur en fram til þess tíma aðgerðir í kynferðisbrotamálum sem hefur stytt málsmeðferðartíma í þeim málaflokki verulega eða um helming. Við erum að ná gríðarlega miklum árangri þar. Í síðustu fjárlögum vorum við sömuleiðis að fjármagna rannsóknir á alvarlegum glæpum og hafa orðið til ný stöðugildi í réttarvörslukerfinu til að við náum ríkari árangri í að uppræta alþjóðlega glæpastarfsemi og önnur alvarleg afbrot. Almenna löggæslan hefur síðan verið talsverð áskorun, m.a. vegna þess að við höfum stytt vaktatímann. Það kallar á viðbótarfjármagn og ofan á það fjármagn höfum við þurft að bæta við fólki og þetta höfum við verið að gera. En ég tek undir með hv. þingmanni og ég fagna reyndar því (Forseti hringir.) að heyra loksins héðan frá stjórnarandstöðunni alvöruundirtektir með mikilvægi þess (Forseti hringir.) að lögreglan sé í færum til að sinna sínum störfum vel. Ég fagna þeirri umræðu vegna þess að það er (Forseti hringir.) nákvæmlega það sem þessi ríkisstjórn vill standa fyrir. Áskorunin felst í því þegar við erum að hækka laun og stytta vaktir og þurfum á sama tíma að bæta við fólki. (Forseti hringir.) Þetta er krefjandi fyrir þingið.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. ræðumenn á að virða ræðutíma sem er tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu.)