154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

lækkun verðbólgu og vaxta.

[15:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við erum minnug þess að þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við forystukeflinu var ramminn settur á ákveðin atriði og sérstaklega á verðbólguna, að það væri lykilatriði að lækka hana sem fyrst. En hvað hefur gerst síðan? Hún hefur hækkað, ekki lækkað. Hún hefur hækkað um 0,2 prósentustig. Það munar um minna, ekki síst fyrir heimili landsins.

Mig langar líka að benda á að það eru ákveðin slæm merki á lofti þegar kemur að efnahagsmálum. Við erum að sjá hópuppsagnir. Greiningaraðilar benda á að það er ákveðið vanmat á samdrætti og erfiðri stöðu hjá ferðaþjónustunni og nefna má fleira. Við erum líka að horfa upp á það að eðlilega hefur háskólamenntað fólk bent á að síðan um aldamót hefur það meira og minna ekki fengið þá kaupmáttaraukningu sem aðrir hafa fengið. Það eru erfiðir og snúnir samningafundir fram undan allt fram eftir hausti þar sem samningar hins opinbera, opinberra starfsmanna, háskólamenntaðra sem annarra, eru lausir. Þetta eru því stór viðfangsefni sem blasa við og ég er sammála ríkisstjórninni um að það er algjört forgangsatriði að lækka verðbólguna til þess að hægt verði að skapa svigrúm fyrir Seðlabankann. Það dugar ekki að það sé bara ein rödd innan peninganefndar Seðlabankans. Þær þurfa að vera allar á sömu skoðun, að við séum með aðstæður til að lækka vexti.

6% verðbólga, og nú 6,2% verðbólga, sem ríkisstjórnin fagnaði mjög mikið — það er náttúrlega enginn metnaður ef það á að vera viðmiðið. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% og því verður ekki náð fyrr en í fyrsta lagi í lok árs 2026 af því að það er alltaf verið að ýta vandanum á undan sér. Það er ekki verið að taka á honum. Við sjáum það í fjármálaáætlun að ekki er verið að taka á m.a. aðhaldi í ríkisrekstri. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra og fá hann til að koma aðeins hingað í raunheima: Hvernig ætlar hann að beita sér fyrir því að ná frekari stjórn á stöðunni, að við sjáum raunverulega að það verði árangur í þá veru að næstu verðbólgutölur verði ekki hækkandi, eins og síðast gerðist, heldur að þær fari lækkandi og að við sköpum svigrúm fyrir Seðlabankann til að lækka vexti og um leið veita heimilum og minni fyrirtækjum ákveðið andrými?