131. löggjafarþing — 116. fundur,  20. apr. 2005.

Forgangur í framhaldsskóla.

380. mál
[18:21]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er hægt að koma upp í púlt og misskilja. Ég ætla ekki hv. þingmanni að rangtúlka, en ég vona að þetta hafi bara verið misskilningur af hálfu hv. þingmanns, því það er alveg ljóst að stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið sú og er sú að allir eigi greiðan aðgang að framhaldsskólum landsins. Hins vegar hafa ekki allir framhaldsskólar landsins blankó tékka að fjárlögum, þannig eru vinnubrögð okkar ekki á hinu háa Alþingi, heldur verða menn einfaldlega að vinna eftir ramma og síðan verðum við eins og hefur tíðkast fram til þessa í ráðuneytinu að reyna að koma til móts við þær þarfir og þá mismiklu fjölgun sem framhaldsskólarnir verða fyrir eftir því hvar þeir eru á landinu. Það er alveg ljóst að þörfin á suðvesturhorninu er mun meiri. Það er meiri þrýstingur hér vegna fjöldans og við verðum einfaldlega að taka á þeim verkefnum.

Ég lít á þetta sem jákvæð verkefni, því það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði áðan að það er mikið fagnaðarefni að þeim er að fjölga sem sækja sér framhaldsskólanám og við þurfum að fjölga þeim einstaklingum því við sitjum aðeins eftir hvað það varðar miðað við aðrar þjóðir. Það er jákvætt verkefni sem við erum að taka á. Það er alveg ljóst að ef við stöndum frammi fyrir því í ráðuneyti menntamála að þurfa einhverjar fjárveitingar vegna aukinnar aðsóknar í framhaldsskóla á hausti verður að sjálfsögðu að koma til móts við þá aukningu á þann hátt að hægt sé að leysa það mál, því framhaldsskólar landsins eru og eiga að vera öllum opnir.