138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

bifreiðalán í erlendri mynt.

. mál
[12:35]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að lögfræðilega séð má líta svo á að það sé veruleg hætta á skaðabótakröfum ef ekki er tryggilega frá þessu máli gengið í upphafi. Ég held hins vegar að slíkar skaðabótakröfur hlytu alltaf að byggjast á einhverju mati á því að um tjón væri að ræða. Ég spyr mig að því hvernig fyrirtæki eigi að geta sannað tjón með allar eignir reiknaðar upp í topp og með enga áhættu reiknaða því samfara.

Afstaða okkar í þessu máli og grunnurinn að frumvarpinu felur í sér að í reynd hafi fyrirtækin ekki horfst í augu við óhjákvæmilega þörf fyrir umbreytingu þessara skulda. Við getum ekki byggt endurreisnina á fjármálafyrirtækjum, eignarleigufyrirtækjum sem eru með svo veikan eiginfjárgrunn að þau eigi ekki val á nokkurri annarri markaðshegðun en að mergsjúga viðskiptavini sína. Þau verða að geta tekið á sig eðlilegan kostnað af umbreytingum skulda. Þau verða að geta horfst í augu við aðstæður. (Forseti hringir.) Þau verða að geta mætt þörfum viðskiptavina sinna. (Forseti hringir.) Við teljum að það sé traustur lagalegur grundvöllur fyrir því að taka á þessu máli. (Forseti hringir.) Þótt eignarrétturinn sé helgur samkvæmt stjórnarskrá vitum við samt að skuldir samfélagsins (Forseti hringir.) hafa aukist miklu meira en verðmætasköpunargeta samfélagsins (Forseti hringir.) stendur undir. Þar af leiðandi liggur alveg ljóst fyrir (Forseti hringir.) að allur eignarréttur í landinu er í uppnámi (Forseti hringir.) vegna hrunsins og það eru margar skuldir sem aldrei (Forseti hringir.) munu fást greiddar.