138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[12:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Öryggismál sjómanna eru eilífðarmál og þau þurfa að vera stöðugt í skoðun. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, fyrir þessa umræðu. Náttúruöflin hafa mikil áhrif á líf og störf sjómanna og ber okkur að bera fulla virðingu fyrir þeim eins og sjómönnum sjálfum.

Það er kveðið á um starf og hlutverk Landhelgisgæslunnar í lögum nr. 52/2006 en hennar lögbundna hlutverk er að sinna öryggisgæslu og björgun á hafi úti. Hún fer einnig með löggæslu á hafinu og gegnir öðrum verkefnum samkvæmt ákvæðum þessara laga. Starfssvæði Landhelgisgæslunnar er vítt, það er hafið umhverfis Ísland, innsævið, landhelgin, efnahagslögsagan og landgrunnið auk úthafsins, samkvæmt reglum þjóðarréttar.

Það hefur verið slegið á það, úr því að verið var að tala um hvað Landhelgisgæslan skiptir miklu máli við björgun sjómanna, að eitt mannslíf er metið á um 100 milljónir í töpuðum skatttekjum fyrir ríkið auk þess sem banaslys veldur andlegu áfalli fyrir aðstandendur. Málið er því brýnt og það er mjög mikilvægt að Landhelgisgæslan geti sinnt þessu hlutverki. Ég sit í þeim þverpólitíska hópi sem Róbert Marshall minntist á. Það er mjög góður starfsfriður í þeim hópi og erum við öll sammála um að hér þurfi að grípa í taumana vegna þess niðurskurðar sem ríkisstjórnin greip til og það er yfirvofandi niðurskurður hjá Landhelgisgæslunni á næstu árum.

Hér þarf að forgangsraða. Ég hef hvatt til þess að ríkisstjórnin forgangsraði málum á þann hátt að hér geti verið réttarríki í landinu, að við getum verið sem sjálfstæð þjóð og er Landhelgisgæslan einn mikilvægi þátturinn í því.

Frú forseti. Ég tel að það sé orðið tímabært að mynda hér samvinnustjórn um þessi mikilvægu verkefni sem liggja fyrir þjóðinni. (Forseti hringir.) Þá er ég að tala um Landhelgisgæsluna, dómstólana, lögregluna, (Forseti hringir.) sýslumennina, allt það sem við þurfum að gera til að (Forseti hringir.) hér sé hægt að reka ríki.