139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[14:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu makalausa máli hefur margt sérkennilegt komið fram. Hv. þm. Atli Gíslason áréttaði það hundrað sinnum í ræðum sínum í fyrrahaust að svo fullkomin væru landsdómslögin að í þeim þyrfti ekki að breyta stafkrók. Nú vitum við að hæstv. innanríkisráðherra lagði af stað í haust með mál til að breyta. Hv. þm. Atli Gíslason fær það nöturlega hlutverk að breyta þessum lögum sem hann taldi svo fullkomin.

Í þeirri þingsályktun sem samþykkt var 28. september segir að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn eftirtöldum ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde o.s.frv. Í kæruatriðunum er síðan sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Málið er höfðað á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra“ o.s.frv.

Nú spyr ég hv. þingmann: Hvernig skilur hann þessi orð? Er ekki alveg ljóst að með ákvörðun Alþingis var ákveðið að ákæra hann? Með ákvörðun Alþingis var ákæran í raun og veru birt. Var það ekki svo að hæstv. fyrrverandi ráðherra var þá kominn með þá stöðu að vera búinn að fá ákæru frá Alþingi sjálfu?

Í framhaldinu urðu hins vegar um þetta deilur. Það varð ágreiningur. Svo virtist sem ekki væri um það einhugur að Alþingi hefði ákveðið þessa ákæru, heldur varð niðurstaðan sú eins og við vitum að ákæran yrði ekki birt fyrr en saksóknarinn hefði gert það. Ég get ekki skilið þingsályktunina sem samþykkt var öðruvísi en svo að Alþingi sjálft hafi verið búið að ákveða þessa ákæru. Þess vegna bið ég hv. þingmann, fyrsta ábyrgðarmann þessa ömurlega máls, sem á eftir að fylgja honum lengi, að segja okkur skoðun sína á þessu máli.