139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er auðvitað hvorki efnismikið né flókið í sjálfu sér. Það er flutt, eins og lýst var af hv. 1. flutningsmanni, til að framlengja umboð þeirra kjörnu dómara sem nú sitja í landsdómi. Það er rétt, eins og kom fram í framsöguræðu hv. 1. flutningsmanns, að fyrir slíku eru ákveðin fordæmi þótt um aðra dómstóla hafi verið að ræða.

Það sem er hins vegar sérstakt í þessu máli er að sami aðili, sama Alþingi, sömu alþingismenn, ætlar að taka ákvörðun um að framlengja kjörtímabil þessara tilteknu dómara og tók þá ákvörðun fyrir sjö mánuðum að ákæra Geir H. Haarde og stofna þannig til fyrstu landsdómsréttarhaldanna í íslenskri réttarsögu fram til þessa. Handhafar ákæruvaldsins sem búnir eru að ákveða ákæru í þessu tiltekna máli ætla sér með öðrum orðum að framlengja kjörtímabil þeirra sem fara með dómsvaldið. Undir öllum venjulegum kringumstæðum og samkvæmt venjulegum réttarsjónarmiðum væri slíkt talið fráleitt. Það kann að vera að rétt sé hjá flutningsmönnum frumvarpsins að þetta sé illskásta leiðin í þeirri slæmu stöðu sem málið er í, a.m.k. út frá sjónarmiðum þeirra sem eru áhugasamir um þennan málarekstur. Miðað við núgildandi lög um landsdóm rennur kjörtímabil hinna tilteknu dómara út í næstu viku. Það kann að vera rétt mat, eins og ég segi, hjá meiri hluta saksóknarnefndar og þeim í þinginu sem fylgja honum að málum, að þessi leið sé skárri en ýmsar aðrar sem hugmyndir hafa verið uppi um til að fylgja eftir ákærunni sem samþykkt var á þingi í lok september.

Ég vil taka fram að frá mínum bæjardyrum séð er frumvarpið sem hér er flutt skárra en frumvarpið sem hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson flutti síðastliðið haust. Eins og menn muna var það tekið til 1. umr. í þinginu, ég held að það hafi verið þann 24. október, og 1. umr. var ekki lokið. Ég geri ráð fyrir því að flutningsmaður þess frumvarps, hæstv. ráðherra, og samherjar hans í þinginu hafi áttað sig á því þegar 1. umr. var komin í gang að þeir væru komnir út á talsverða háskabraut með því að halda áfram með málið enda var tilurð þess frumvarps og málatilbúnaður allur verulega á skjön við það sem telja má eðlilegt í réttarríki eins og ég kem nánar inn á síðar.

Ég ætla að rifja upp að í því frumvarpi voru lagðar til breytingar á sjö greinum landsdómslaganna. Sumar voru formbreytingar, aðrar verður frekar að telja efnisbreytingar. Frumvarpið var lagt fram af ráðherra sem nokkrum vikum áður hafði samþykkt málshöfðun hér á þingi. Málið, eins og ég nefndi áðan, hið fyrsta og eina sinnar tegundar til þessa, var komið til landsdóms. Breytingarnar voru, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson rifjaði upp áðan, að minnsta kosti að hluta til lagðar til samkvæmt tillögu forseta landsdómsins og sérlega kjörinn saksóknari Alþingis var með í ráðum, a.m.k. varðandi eina grein frumvarpsins. Þetta samkrull handhafa hinna mismunandi þátta ríkisvaldsins var auðvitað til þess fallið að vekja tortryggni og kallaði eðlilega á gagnrýni. Af þessum sökum var málið allt undarlegt hvað sem í rauninni leið sjálfum efnisatriðum frumvarpsins.

Annað atriði sem var gagnrýnt og ekki að ástæðulausu var að lagðar voru til ýmsar breytingar á málsmeðferðarreglum eftir að málið gegn fyrrverandi forsætisráðherra var hafið og komið til landsdóms. Það liggur alveg fyrir að það er ekki sambærilegt við venjulegar breytingar á réttarfarslögum sem ætlað er að hafa almennt gildi. Hér voru lagðar til breytingar á málsmeðferðarreglum í einu tilteknu máli eftir að ákæra hafði verið ákveðin og eftir að málið var komið til dómsins. Þetta var gert þrátt fyrir að við afgreiðslu ákærunnar á þingi hefði því verið marglýst yfir að vel mætti styðjast við landsdómslögin óbreytt. Þetta kom margoft fram í umræðum í þinginu í aðdraganda þess að ákæran var samþykkt.

Þessir augljósu gallar í tengslum við frumvarp hæstv. innanríkisráðherra frá því í haust hafa, eins og ég sagði, vafalaust orðið til þess að 1. umr. um það var hætt í miðju kafi eftir örfáar ræður og ekki haldið áfram síðar. Frumvarpið hefur ekki komið aftur á dagskrá þingsins á þeim rúmu fimm mánuðum sem eru liðnir frá því að 1. umr. hófst. Nú lítur út fyrir að ætlunin sé að leggja það frumvarp alfarið til hliðar og ég tel að það sé vel. Ég held að annað hefði einfaldlega ekki verið í kortunum, ekki tækur möguleiki.

Ég minni á þetta, bæði til að rifja upp forsögu málsins og samhengi hlutanna. Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um margvíslegan vandræðagang og ég vil leyfa mér að segja jafnvel klúður í sambandi við framgang málsins frá þeim tíma að meiri hluti Alþingis steig það skref að samþykkja ákæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra. Sum þau vandræðamál sem upp hafa komið eru kannski ekki stórvægileg hvert fyrir sig en önnur eru að sönnu mikilvægari. Ég ætla að drepa á nokkur atriði en þau eru mun fleiri.

Í fyrsta lagi má minna á að kjör saksóknara fór ekki fram á þingi samhliða eða strax í kjölfar afgreiðslu ákærutillögunnar heldur nokkru síðar og meira að segja á öðru löggjafarþingi. Þar þótti mér þingið teygja sig langt miðað við ákvæði landsdómslaganna, að minnsta kosti var þar um að ræða frjálslega túlkun.

Í öðru lagi dróst verulega að skipa hinum ákærða verjanda sem ég tel líka að hafi verið í ósamræmi við landsdómslögin.

Í þriðja lagi varð síðan verulegur dráttur á því að landsdómur kæmi saman og hæfist handa við að takast á við málið, enn og aftur í ósamræmi við ákvæði landsdómslaganna.

Við allt þetta hefur ferlið tafist og málareksturinn sem slíkur og ég minni aftur á að nú eru meira en sjö mánuðir liðnir frá því að Alþingi tók ákvörðun um að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra. Enn er ákæruskjal frá saksóknara ekki komið fram eins og hv. þm. Atli Gíslason vísaði til áðan. Kannski kemur það í þessari viku, kannski í næstu viku, en alla vega er ljóst að það kemur seint fram. Augljóst er að talsverður tími er þangað til aðalmeðferð málsins getur hafist, hvað þá úrslit og dómsniðurstaða.

Þessi langi tími er auðvitað óheppilegur fyrir alla aðila. Ég tel að ýmsir beri ábyrgð á þessu en hvað sem því líður er að minnsta kosti ljóst að þetta er óheppilegt fyrir hinn ákærða í málinu en líka óheppilegt fyrir þingið og aðra sem að málinu koma. Það er vont þegar svona mál dregst úr hömlu. Í mörgum tilvikum held ég að rekja megi tafirnar til einhvers ástæðulauss vandræðagangs, ákvarðanir hafi af einhverjum ástæðum ekki verið teknar fyrr en seint og um síðir og tiltölulega ljósum ákvæðum landsdómslaganna eins og þau eru hafi ekki verið beitt, kannski vegna þess að einhverjir biðu eftir því að breytingar á landsdómslögunum yrðu samþykktar, en það er önnur saga.

Tími minn er takmarkaður þannig að ég ætla ekki að fara nánar út í þetta. Ég kemst heldur ekki yfir í þessari ræðu um forsendur ákærutillögunnar og aðra slíka þætti enda kannski ekki tilefni til í sjálfu sér að endurtaka umræðuna frá því í september. Ég læt nægja að vísa til þeirra orða sem ég hafði uppi um málið í september en verð að ítreka mat mitt að hér hafi verið á ferðinni fyrst og fremst pólitísk aðgerð sem fólst í því að ágreiningur af vettvangi stjórnmálanna var færður inn í réttarsali á forsendum sem ég tel bæði hæpnar og vafasamar. Ég tel raunar að þar hafi þingið, eða sá meiri hluti þess sem stóð að samþykkt ákærutillögunnar, farið inn á nýjar og mjög háskalegar brautir í íslenskum stjórnmálum með þeirri aðgerð.

Að svo mæltu, hæstv. forseti, ætla ég að ljúka máli mínu um þetta. Hér er verið að breyta einu atriði varðandi landsdómslögin en ekki sjö mismunandi atriðum eins og hæstv. innanríkisráðherra lagði fram í haust. Ég held að það geti verið rétt mat hjá meiri hlutanum í saksóknarnefnd að sú leið sem hér er lögð til sé skárri en ýmsar leiðir sem áður voru til umræðu, skárri í þeim skilningi að minni réttarspjöll verða vegna þess. Ég vek engu að síður athygli á því að staðan sem við erum í er afar sérkennileg. Það er sérkennilegt að þeir einstaklingar og sú stofnun sem ákváðu að ákæra eina manninn sem hefur verið ákærður í landsdómsmáli skuli jafnframt taka pósitífa ákvörðun um hverjir það eru sem koma til með að dæma í því sama máli.