139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst einhvern veginn þegar ég horfi á frumvarpið sem tengist þessu landsdómsmáli að ég sé að horfa í glyrnurnar á draug. Það hefur verið vakið upp mál sem ég hygg að flest okkar hefðu í raun og veru kosið að hefði ekki þurft að líta dagsins ljós á Alþingi.

28. september síðastliðinn er að mínu mati einhver dapurlegasti dagur í sögu Alþingis. Þá var unnið mjög vont verk þegar sú ákvörðun var tekin eftir ótrúleg undirmál einstakra þingmanna — hér á ég ekki við hv. þm. Atla Gíslason sem var formaður nefndarinnar svo það sé tekið skýrt fram — einkanlega úr Samfylkingunni sem leiddu til þeirrar niðurstöðu sem ég hygg að þingmenn á Alþingi Íslendinga séu miður sín yfir þrátt fyrir allt. Við vitum að það mál fór af stað eins og allir þekkja á grundvelli starfs þingmannanefndar Alþingis þar sem meiri hluti þeirrar nefndar hafði ákveðið að ákæra fjóra tiltekna fyrrverandi ráðherra. Niðurstaðan varð sú eftir öll undirmálin að í stað þess að fjórir fyrrverandi þingmenn væru ákærðir, eins og ætlunin var, var einungis samþykkt ákæra á hendur einum hæstv. fyrrverandi ráðherra. Sjö mánuðum eftir ákvörðun Alþingis er málið enn þá í þeirri stöðu að þessum hæstv. fyrrverandi ráðherra, Geir H. Haarde, hefur ekki verið birt ákæra af hálfu saksóknara.

Nú er málið komið í þann undarlega búning að það þarf að gefa landsdómi framhaldslíf svo að hann geti lokið verkefni sínu þrátt fyrir alla svardaga um að ekki þyrfti að hreyfa við þeirri löggjöf. Við vitum líka að þetta er nokkurs konar taka tvö í málinu því að í haust, 18. nóvember síðastliðinn, var lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum um landsdóm. Það gerði þáverandi hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra — mannréttindaráðherra. Einhverra hluta vegna var ákveðið að fella burtu það starfsheiti hæstv. ráðherra þannig að hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra er ekki lengur til heldur er hann innanríkisráðherra. Frumvarp var lagt fram, mælt fyrir því, ein ræða flutt og síðan ekki söguna meir, sem betur fer. Auðvitað var öllum ljóst þegar málið var skoðað og hafði fengið alla vega þá athygli á Alþingi að það var ákaflega illa hugsað og gekk hraklega á svig við allar leikreglur sem við teljum okkur þekkja í lýðræðislegu samfélagi sem hefur þó undirritað ótal samninga og sáttmála á þessu sviði gagnvart umheiminum.

Þetta mál hygg ég vera þannig að fáir standi upp og segi: Ég er stoltur yfir þessu. Ég held að ég muni það rétt að hv. þm. Atli Gíslason, ábyrgðarmaður málsins sem 1. flutningsmaður þess á sínum tíma, hafði um það orð í fjölmiðlum að niðurstaðan hefði ekki verið sú sem hann hefði kosið. Það er auðvitað svo. Það er vissulega kaldhæðni örlaganna að það skuli lenda á herðum hv. þm. Atla Gíslasonar að flytja þetta frumvarp til að hægt sé að framfylgja ætlun Alþingis sem var samþykkt með litlum meiri hluta, að ákæra hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde.

Á sínum tíma voru lögin um landsdóm harðlega gagnrýnd. Svarið var á þann veg að þau væru kannski gölluð og hefðu örugglega verið samin öðruvísi væri verið að búa til textann í dag en þau slyppu. Síðan gerðist það, sem sagt 18. nóvember, að hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra — svo að ég haldi því gamla starfsheiti til haga sem ákveðið var að leggja niður, kannski vegna þess að mönnum var ekki alveg rótt með að mannréttindaráðherra stæði að ákæru sem bryti væntanlega gegn öllum mannréttindasáttmálum sem við höfum samþykkt — lagði fram þetta frumvarp til þess að hressa upp á lögin vegna þess að menn óttuðust að þau stæðust ekki óbreytt.

Við vitum líka að frá 28. september hefur þetta mál verið ótrúlega farsakennt og ömurlegt. Það er í fyrsta lagi Alþingi til hneisu og stórskammar að hafa ekki samkvæmt lögunum um landsdóm tekið ákvörðun um að skipa saksóknara á þeim tímapunkti þegar ákvörðunin um að kæra hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra var tekin. Það er alveg ljóst þegar lesið er bókstaflega í efni þeirra laga að Alþingi bar að skipa saksóknara á þeim tíma. Það var ekki gert. Það var gert seint og um síðir, eftir dúk og disk. Það er þess vegna ljóst að Alþingi var þar með komið út á ákaflega vafasamar brautir. Það vantaði ekki að fundið væri að þessu strax og það kom upp. Á það var ekki hlustað. Þeir þingmenn sem tóku þá ákvörðun verða að bera ábyrgð á því. Annað er hins vegar óhugsandi en að þetta verði skoðað þegar málið kemur að lokum til úrlausnar landsdómsins, sem kom enn fremur ekki saman fyrr en seint og um síðir.

Við vitum líka að lögin kveða mjög skýrt á um hlutverk varasaksóknara. Hann á að vera afleysingamaður saksóknara. Skýrt er kveðið á um það í 13. gr. að hann eigi að vera til afleysingar ef saksóknari forfallast. Svo er ekki. Saksóknari réð hann bara í skipsrúm hjá sér þegar í stað og ætlaði honum ákveðið hlutverk og kippti honum þar með út úr rannsókn efnahagsbrota, sem viðkomandi hefur mikla reynslu í, þegar þjóðfélag okkar öskraði beinlínis á aðgerðir á þeim sviðum. Hann var sem sagt tekinn og dubbaður upp í hlutverk sérstaks aðstoðarmanns saksóknara án þess að gert sé ráð fyrir því í lögum.

Síðan byrjaði farsinn ótrúlegi. Af því að hér var nefnt af hv. þm. Atla Gíslasyni að reynt hefði verið að tryggja réttarfarsreglur kom upp sú undarlega staða að þrátt fyrir að ákvörðun um ákæru lægi fyrir frá Alþingi 28. september var eins og fullkomin andstaða væri við að skipa meintum sakborningi verjanda. Í aðdraganda þess máls fór fram ótrúlegt leikrit. Forseti landsdóms lét sér sæma að skrifa saksóknara bréf til að spyrja álits á því hvort skipa ætti hinum ákærða verjanda. Hvaða rugl er þetta? Er ekki alveg augljóst að hinn ákærði átti að fá verjanda? Lék einhver vafi á því? Átti saksóknarinn að svara því hvort sá sem átti að ákæra ætti að fá verjanda?

Síðan var byrjað að breyta leikreglunum eftir á eða reynt að gera það eins og við sáum í frumvarpinu sem hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra lagði fram á sínum tíma. Í raun og veru var fallist á það með okkur hinum að lögin um landsdóm væru gölluð. Þá var gripið til þess ráðs að reyna að staga upp í götin á leistanum með því að koma fram með það frumvarp.

Þetta er ákaflega ójafn leikur. Undirbúningur að saksókninni er þegar hafinn þó að ákæra hafi ekki endanlega verið birt af hálfu saksóknara. Ríkið ætlar sér að setja tugi milljóna í verkið. Núna stendur tékkhefti hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, galopið. Það er engin fyrirstaða á að leggja strax 35 millj. kr. í púkkið til að undirbúa saksóknina. Síðan er kostnaður við landsdóminn sjálfan 200 millj. kr. sem munu streyma úr galtómum ríkissjóði til að standa fyrir þessu. Þá kemur sér vel að eiga kosta á láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þessa dagana. Lengst af áttu hvorki meintur sakborningur né verjandi hans, sem var skipaður seint og um síðir, kost á að fylgjast með undirbúningi sem er þó grundvallarregla eftir því sem ég þekki í nútímalöggjöf.

Þetta var ljótur hluti af öllu málinu sem við þekkjum.

Síðast en ekki síst er það sem sneri að landsdómi sjálfum. Hann kom saman seint og um síðir. Hvernig stóð á því að hann kom saman að lokum þó að hann ætti að koma saman eins fljótt og auðið yrði, eins og segir í löggjöfinni? Hann kom saman vegna þess að fyrir lá kæra frá Geir H. Haarde og lögmanni hans sem landsdómur þurfti að taka afstöðu til. Þannig er þetta mál allt saman ótrúlegt að allri gerð og inntaki og eðli og verður lengi í minnum haft, ekki til að hreykja sér af heldur til að iðrast yfir þeirri ákvörðun sem Alþingi tók.

Það vekur athygli þegar þetta litla frumvarp er skoðað að það er í meginatriðum ólíkt því frumvarpi sem hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra „sálugi“ flutti í þessu máli. Þetta frumvarp er aðeins ein efnisgrein. Fyrra frumvarpið var einar átta. Þegar við lesum frumvarpið sjálft kemur fram að 1. gr. þess máls er talsvert öðruvísi en 1. gr. frumvarpsins sem lagt var fram á haustdögum. Ég ætla að lesa þessar tvær efnisgreinar saman og biðja hv. þm. Atla Gíslason að svara því hvers vegna var talið að gera þyrfti breytingar á efnisgreininni. Ég vek athygli á því að hv. þingmaður sagði í andsvari áðan að hann hefði hvatt til þess að fyrra frumvarpið yrði samþykkt þó að hann teldi það ekki eins vel úr garði gert og 1. efnisgreinina í þessu frumvarpi. Nú les ég þessar tvær efnisgreinar saman til að spyrja hv. þingmann hvers vegna hann hafi ekki kosið að flytja efnisgreinina eins og hún var flutt upphaflega á síðastliðnum haustdögum. Í fyrra frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Dómarar sem hafa byrjað meðferð máls skulu ljúka því þó að kjörtímabil þeirra sé á enda.“

En í því frumvarpi sem við ræðum hér segir aftur á móti:

„Dómarar sem eiga sæti í landsdómi þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun gegn ráðherra og varamenn þeirra skulu ljúka meðferð þess máls þrátt fyrir að kjörtímabil þeirra sé á enda.“

Nú sjáum við hver staðan er. Hún er sú að landsdómur hefur komið saman, eins og ég nefndi áðan. Dómarar sitja í landsdómi. Nú er ætlunin að gera þær breytingar sem um ræðir. Nú spyr ég hv. þingmann: Hvers vegna? Hvaða ástæða var fyrir því að þessi leið var farin en ekki sú sem hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra lagði fram á haustdögum og treysti sér síðan ekki til að fylgja eftir? Það sýnir vissulega ákveðið manndómsmerki á þeim ágæta hæstv. ráðherra að hafa ekki treyst sér til að fylgja eftir þessu vitlausa frumvarpi sínu í gegnum þingið.

Ýmislegt fleira vekur athygli. Saksóknarinn í þessu landsdómsmáli var nýlega ráðinn ríkissaksóknari og starfar sem sagt í tvöföldu hlutverki, sem vekur alls konar spurningar. Er saksóknari að vinna tvöfalda vinnu á tvöföldum launum? Með hvaða hætti verður staðið að þessu? Þetta þarf auðvitað að upplýsa. Er talið eðlilegt að saksóknari sé starfandi á báðum stöðvum, annars vegar sem saksóknari í þessu landsdómsmáli og hins vegar sem saksóknari í málinu að öðru leyti? Þessu þarf að svara.

Nú hefur hæstv. fyrrverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra bæst við í þingsal og býð ég hann velkominn. (Innanrrh.: Núverandi.) Nei, hæstv. ráðherra er nefnilega ekki lengur dómsmála- og mannréttindaráðherra. Við tókum eftir því að sá starfstitill var afnuminn þegar hæstv. ráðherra var gerður að innanríkisráðherra. Ég hef verið að tengja það því að hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra hafi ekki kosið að bera þann titil hafandi yfir sér að hafa tekið ákvörðun um að ákæra hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Ég held að ekki hefði farið vel á því og ég skil það vel. Mér finnst hæstv. ráðherra maður að meiri að hafa viljað ganga þannig frá því.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi leggja áherslu á.

Eins og ég nefndi áðan sagði hv. þm. Atli Gíslason að hann hefði talið að 1. gr. eins og hún var í upphaflega frumvarpinu hefði verið ófullkomin. Nú vil ég hvetja hann til að svara því hvers vegna hann taldi hana ófullkomna og hvort hann hefði þá talið að með samþykkt þess frumvarps hefði málið, sem höfðað var eða ekki á hendur hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, ónýst við að það að frumvarpið hefði orðið að lögum á sínum tíma.