139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Já, frú forseti, það er rétt skilið. Ég tel óþarft að kveða á um það í lögum að ráðuneytin skuli ekki vera fleiri en tíu. Ég tel að ríkisstjórn á hverjum tíma eigi að geta ráðið því og ákveðið hvernig hún skiptir með sér verkum og hversu mörg ráðuneyti eða ráðherrar eru. Ég tel það nauðsynlegan hluta af þeim sveigjanleika sem við erum að reyna að ná.

Varðandi afstöðu Vinstri grænna á sínum tíma um að slá saman ráðuneytum í kjölfar tiltekinna samninga ríkisstjórnarflokka þá, sem oft ganga undir nafninu hrossakaup þegar verið er að ljúka stjórnarmyndunarviðræðum, vil ég ekki bera það saman við það sem við erum nú að gera þegar við horfum til heildstæðrar endurskoðunar á lögum um Stjórnarráðið. Það hlýtur að horfa öðruvísi við, það gerir það a.m.k. í mínum augum.

Ég tek fram að þetta er ekki frumvarp um að setja á stofn atvinnuvegaráðuneyti. Þetta er ekki frumvarp um að setja á stofn auðlinda- og umhverfisráðuneyti og þetta er ekki frumvarp sem fjallar sérstaklega um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þetta er frumvarp sem fjallar um heildarskipulag ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og eins og ég hef sagt áður tel ég mjög mikilvægt að ríkisstjórn hverju sinni skipti með sér verkum með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Að mínu viti hefur ekkert breyst í grunnstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að því leytinu til að við teljum enn mjög mikilvægt til að verja náttúruauðlindir í landinu að hér verði komið á umhverfis- og auðlindaráðuneyti, einu ráðuneyti þar sem saman er litið til umhverfismála og auðlinda, auðlindavörslu og auðlindaumsýslu. Nýtingin aftur á móti getur verið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti eða hvað það kallast.