139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að það væri að mörgu leyti ekki vitlaust að allsherjarnefnd færi vel yfir þetta mál og leiti jafnvel utanaðkomandi álita.

Það er annað sem mig langar að koma inn á, sem hefur verið rætt hér fyrr í dag, og snýr kannski beint og óbeint að þessu, menn greinir á um hvort þetta tengist með einhverjum hætti. Sumir halda því fram að þetta sé gert til að auðvelda það að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Aðrir halda því fram að hugsanlega tengist þetta kröfum frá Evrópusambandinu. Í umræðum hér fyrr í dag kom fram að embættismenn í Evrópusambandinu hefðu verið að vinna með pappíra sem ætlunin væri að íslenskir þingmenn samþykktu, þar sem því var fagnað að slíkar stjórnarráðsbreytingar væru að ganga í gegnum þingið og þær væru liður í þessu umsóknarferli. Mig langar því að spyrja: Hvað finnst hv. þingmanni um það þegar málum er stillt upp með þessum hætti? Telur hann að einhver tenging sé á milli þess frumvarps sem hér er og Evrópusambandsumsóknarinnar? Eða á milli þessa frumvarps og þess einarða vilja, í það minnsta hæstv. forsætisráðherra, að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þrátt fyrir mikla andstöðu hagsmunasamtaka, mikla andstöðu þeirra sem starfa í þeim atvinnugreinum sem þarna eru undir og mikla andstöðu mjög margra í samstarfsflokknum? Hvað finnst hv. þingmanni um þessar tengingar? Telur hann að þær séu til staðar, eða er það svo, eins og hæstv. forsætisráðherra segir, að þetta tengist ekki með nokkrum hætti?