139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, það segir hvergi berum orðum í þessu frumvarpi að það feli það í sér að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði lagt niður. En ég rakti ágætlega í ræðu minni áðan hvernig hæstv. forsætisráðherra hefði verið hrakin til baka og Alþingi Íslendinga tekið út þann kafla sem sneri að því að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og að þá lægi ljóst fyrir, í ljósi þess að Alþingi hefði gert það, að eina leiðin til að leggja þetta ráðuneyti niður væri sú að veita forsætisráðherra þá heimild sem einmitt kemur fram í þessu frumvarpi, þ.e. að veita hæstv. forsætisráðherra heimild til að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið án þess að það komi fram í frumvarpinu. Ég veit ekki hvað er óskýrt í þessu efni, ég taldi mig hafa skýrt þetta mjög vel út og hv. þingmaður ætti kannski að hlusta aðeins betur.

Hvað snertir Evrópusambandsumsóknina sjálfa minni ég bara hv. þingmann á að ég er einn þeirra sem studdu það að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hv. þingmaður beitti sér ásamt þingflokki Samfylkingarinnar mjög gegn því að þjóðin fengi að kjósa um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu.

Ég vitnaði til þess í ræðu minni áðan að hins vegar lægi fyrir í gögnum frá Evrópusambandinu að það hefði áhyggjur af því hversu hægt gengi að breyta íslenskum lögum og stjórnsýslu er sneri að landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

Það liggur líka fyrir að samkvæmt minnisblöðum sem hefur verið vitnað til í dag þurfi að ráðast í þessar breytingar einmitt áður en þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram. Þetta er á fleiri sviðum og er að koma betur og betur í ljós. Þá hlýt ég að spyrja á móti hv. þingmann: Hvernig getur hann réttlætt það að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla (Forseti hringir.) þegar það liggur fyrir að það eru kröfur um að gera breytingar áður en þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram? (Forseti hringir.) Það er lítið lýðræði í því.