140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ömurlegt fyrir okkur öll í hvaða farvegi þessi mál eru og til minnkunar fyrir þingið og í raun óboðlegt að umræðan um svo mikil grundvallarmál í samfélagi okkar skuli vera á þessu plani, að karpað sé um það hvort margir fylgismenn frumvarpanna hafi verið á Austurvelli eins og einhverjir þingmenn töluðu í dag. Þetta er auðvitað alveg ömurlegt.

Svo segja hv. þingmenn stjórnarliðsins: Þetta er á grunni niðurstöðu sáttanefndarinnar. Erum við ekki að tala um nýtingarsamninga? Erum við ekki að tala um veiðiskatt eða veiðigjald? Jú, við erum að tala um það, en líka svo miklu meira. Við erum að tala um það sem allir aðilar eru sammála um að gangi ekki upp og samt er barist hér áfram.

Nefndin fékk títtnefnda hlutlausa sérfræðinga til að vinna úttekt á þessu máli fyrir sig. Þeir sögðu eftir þær breytingar sem komu fram núna á veiðiskattsmálinu: Jú, þetta er mikil breyting til batnaðar. En við verðum að vita hvernig fiskveiðistjórnarfrumvarpið lítur út áður en við getum sagt til um hvort greinin ræður við þetta eða ekki. Þegar fyrir lágu þau drög að breytingartillögum sem stjórnarmeirihlutinn var tilbúinn til að gera á fiskveiðistjórnarfrumvarpinu sögðu þeir: Gagnrýni okkar stendur óbreytt. Það hefur ekkert breyst. Sjávarútvegurinn mun ekki ráða við þetta, þetta hefur stórskaðleg áhrif. En samt erum við í þessari stöðu í dag. Er það ekki með ólíkindum? (Forseti hringir.) Er ekki verið að skella skollaeyrum við staðreyndum? Hvers konar pólitík er þetta? (Forseti hringir.) Þetta er ekki boðlegt þegar svo mikilvægir hlutir eru undir, og aldrei.