140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hafði svo sem ekki hugsað mér að taka til máls í þessari umræðu en leitað var eftir því að ég setti fram viðhorf mín vegna þess að ég hefði setið í þeirri nefnd sem átti að fjalla um að gera Alþingi að fjölskylduvænum vinnustað. Það er langt síðan við funduðum síðast en mig rekur þó minni til að þar voru uppi ýmsar metnaðarfullar hugmyndir eins og þær að þingstörfum gæti verið lokið kl. 5 á daginn svo að þingmenn gætu sótt börn sín í leikskóla. Ég skal játa það að ég mælti fremur gegn þeirri hugmynd, taldi hana kannski ekki alveg raunhæfa en nú er ég farinn að velta því fyrir mér hvort ég hafi misskilið það eitthvað, hvort hugmynd manna hefði verið sú að þessir fundir væru þá jafnan til kl. 5 á morgnana en ekki kl. 5 síðdegis eins og ég hafði skilið málið á þeim tíma.

Að öllu gamni slepptu þá vil ég segja við hæstv. forseta að það mundi greiða mjög fyrir þingstörfum að hæstv. forseti mundi upplýsa okkur um það hvernig framhaldið yrði á þessum fundi og svona hótfyndni um að svo og svo margir séu á mælendaskrá er ekki beinlínis til þess fallin að upplýsa neinn og lýsir frekar einhverjum tilraunum til að snúa út úr því sem hv. þingmenn eru að tala um í kvöld.