140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað sætir það furðu að sveitarfélög skuli hafa verið sett í þá stöðu af hálfu ríkisvaldsins að þurfa að leita eftir áliti sérfræðinga sem hafa þurft að vinna þá vinnu frá grunni. Þetta hlýtur að vera töluvert kostnaðarsöm vinna við að fara yfir svona yfirgripsmikið mál en fyrir vikið eru í mörgum tilvikum lítil sveitarfélög með lítil fjárráð að skila mjög ítarlegum umsögnum sem innihalda fræðilega greiningu á áhrifum frumvarpanna, sem er miklu ítarlegri og meiri en ríkisstjórnin hafði sjálf lagt í áður en hún samdi þessi frumvörp.

Það skortir nefnilega enn þá algerlega á að ríkisstjórnin geri almennilega greiningu á áhrifum frumvarpanna. Sem betur fer hefur atvinnuveganefnd leitað til sérfræðinga sem hafa undantekningarlaust, eins og ég nefndi áðan, varað mjög við frumvörpunum og þeim áhrifum sem þau kæmu til með að hafa en enn á ríkisstjórnin eftir að vinna almennilega greiningu. Því er í rauninni ekkert vit í öðru en menn hefji vinnu aftur frá grunni og á allt öðrum forsendum og helst í einhvers konar samráðsferli eins og var reyndar yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar.

Eins og ég kom aðeins inn á í ræðu minni er í rauninni algerlega óskiljanlegt að þegar verið er að fjalla um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar séu hlutirnir unnir með þessum hætti. Við getum bara borið okkur saman við Noreg. (Forseti hringir.) Dettur mönnum það í hug að einhver ríkisstjórn Noregs, sama hvernig hún væri skipuð, hefði farið fram með þessum hætti við grundvallarbreytingar á sjávarútvegskerfinu þar í landi?