144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[12:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg inni á því að mjög ódýr byggðaleg aðgerð og atvinnuaðgerð við að skapa störf sé að efla leigupott ríkisins og vera með þær aflaheimildir, eins og núna makrílinn. Það er auðvitað skref í þá átt þótt hann sé ekki framseljanlegur. Mér finnst gott að sjá að þannig sé um það búið hér og tel að það ætti að vera fyrirmynd að öðru að við setjum einhverjar aflaheimildir sem færu síðan vaxandi í hlutfalli við aflaaukningu og mundi styrkja mjög þessar byggðir. Það þarf oft ekki mikið til en menn eru oft hræddir við að hrófla eitthvað við þessu niðurnjörvaða kvótakerfi því það ógni þá eitthvað þeim stóru og sterku, en þetta mun ekki gera það.

Svo ég vitni áfram í útgerðarmenn og trillukarla fyrir vestan sem ég hitti á helginni þá heyrði ég hjá einum öflugum útgerðarmanni með stórt fyrirtæki að það væri ekkert gaman að vera eina tréð eftir í skóginum. Og það er svolítið mikið til í því. Ef minni útgerðir hafa engan grundvöll og engir möguleikar eru á nýliðun og greinin bara eldist og hverfur eða það að hinir stóru og sterku séu með leiguliða til að gera út sína báta, það er ekki það sem ég vil sjá í framtíðinni, heldur að menn geti á eigin forsendum gert út sína báta en þurfi ekki að vera leiguliðar hjá hinum stóru og sterku. Miðað við reynslu af strandveiðum tel ég að setja eigi fasta daga inn í hvern mánuð og þá yrðu veiðarnar miklu hagkvæmari frekar en að menn séu að pressast í hundleiðinlegu veðri við að fara rétt út fyrir fjarðarkjaftinn og komi svo með lítinn afla í land.