144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

fundur forseta með formönnum þingflokka.

[15:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þessa bón, mér finnst hún skynsamleg. Við vitum öll hérna hvernig umræðan hefur þróast á hinu háa Alþingi. Ég held að það sé best fyrir alla, ekki síst virðingu þingsins vegna, að hér verði fundarhlé þar til formenn flokkanna hafa rætt saman svo að við sjáum hvernig þessi dagur mun þróast og vonandi hvernig næsti dagur mun verða vegna þess að umræðan hér litast óhjákvæmilega öll af því, hvort sem fólki líkar það betur eða verr og jafnvel hvort sem fólk ætlar sér það eða ekki. Þegar allt er óljóst og enginn sér fram á veginn og veit hvað kemur næst þá verður ekki fram hjá því litið að á næstunni eru alla vega örfá umdeild mál. Ég held að það geti haft mikla þýðingu hvað kemur út úr fundum milli meiri hlutans og minni hlutans þannig að ég tek undir óskir þeirra hv. þingmanna sem töluðu hér áðan.