144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

um fundarstjórn.

[18:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er um Alþingi eins og um landið okkar, Ísland, að það er engin áætlun í gangi. Þar er við sömu forustuna að sakast, ríkisstjórnarforustuna, sem virðist vera algjörlega ófær um að gera áætlanir og fylgja þeim.

Starfsáætlun þessa þings rann út í síðustu viku. Engin önnur áætlun hefur litið dagsins ljós og ríkisstjórnin hefur ekki hugmynd um hvaða mál hún vill fá afgreidd héðan úr þinginu. Það getur út af fyrir sig verið skemmtilegt að skiptast á skoðunum við stjórnarmeirihlutann hér í þingsalnum fram eftir sumri, en það væri þá óskandi, virðulegur forseti, að stjórnarþingmenn væru þá viðstaddir og kannski ástæða til að hafa reglulegar atkvæðagreiðslur til að tryggja að þeir séu hér í húsi hið minnsta.