144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum svarið og við erum algjörlega sammála um að það er mikilvægt að stuðla að byggðaþróun sem höfðar til nútímafólks og er líkleg til þess að auka vilja fólks til þess að búa á staðnum eða flytja þangað.

Ég vil taka dæmi af Ísafirði, sem er ekki svipur hjá sjón hvað útgerð varðar. Kerfið hefur tekið sinn toll af því bæjarfélagi. Þar er vissulega smábátaútgerð en sáralítil útgerð. En þar eru nokkur fyrirtæki sem laða til sín starfsfólk og eru í mikilli verðmætasköpun og þau byggja á sjávarafurðum. Einhver þeirra búa til plástra úr fiskroðum svo dæmi sé tekið. Það er líka mikilvægt að horfa til þess að sveitarfélög eða svæði og bæir fái að þróast í samhengi við sína (Forseti hringir.) sögu, ég held að það sé mikilvægt fyrir sjálfsmynd og menningu og svo fylgir ýmislegt annað með.