144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[19:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að vera til fjármagn og að þjóðin fái fjármagn af auðlind sinni til þess að geta brugðist við vá sem upp kann að koma. Það sem er hér á ferðinni, án þess að ég sé að gera lítið úr þessu máli sem er á ferðinni og þeirri lausn sem verið er að leggja til og átta mig á því að það er nauðsynlegt að afgreiða það hérna, er ein af fjölmörgum skyndireddingum á kerfi sem við ættum í raun fyrir löngu að vera búin að leggja niður fyrir okkur í sæmilegri sátt á milli stjórnmálaflokka, milli landshluta, landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis, þannig að það ríkti góð sátt um þennan grunnatvinnuveg. Því miður hefur okkur ekki tekist það, við höfum rifist um þennan málaflokk í áratugi.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson átti sæti í ríkisstjórn sem tók við árið 2007, algjörlega grunlaus um hremmingar sem biðu nokkrum mánuðum síðar. En þá var líka mikill aflabrestur og samdráttur í aflaheimildum í þorski, ef ég man rétt, og ríkisstjórnin sem hv. þingmaður átti aðild að þá greip til margvíslegra ráðstafana. Þær voru ekki allar fólgnar í því að úthluta kvóta heldur í að byggja upp innviði, að setja fjármagn í samgöngubætur og þar fram eftir götunum. Það er þannig sem ég held að ríkið, samfélagið eigi að vera í stakk búið, til að geta brugðist við þegar svona kemur upp, vegna þess að bættar samgöngur, bætt lífsskilyrði á allan hátt auka möguleikann á fjölbreyttara atvinnulífi, auka möguleikann á því að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni, (Forseti hringir.) þannig eru menn betur í stakk búnir til þess að bregðast við áföllum.