145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

samkeppnisstaða álfyrirtækja.

[15:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Eftir stendur samt sem áður að hæstv. ráðherra talaði um að mikilvægt væri að bæta samkeppnisstöðu álfyrirtækja á Íslandi þó að, samkvæmt hennar orðum hér, ekki standi til að gera það með þeim hætti sem vitnað var til ef það kunni að orka tvímælis með einhverju móti.

Ég vil beina sjónum okkar að því að það hefur komið fram hér í þingsal og í fjölmiðlum að það er meiri eftirspurn eftir raforku frá stórnotendum en framboðið er. Það hefur einnig komið fram að ýmsir aðilar sem vilja byggja upp iðnaðarstarfsemi hér á landi eru tilbúnir til að greiða umtalsvert hærra verð en álverin eru að greiða.

Þess vegna vil ég spyrja: Af hverju ættu stjórnvöld að auka ívilnanir til að bæta samkeppnisstöðu álvera hér á Íslandi þegar aðilar bíða í röðum eftir að kaupa raforku á mun hærra verði fyrir mun umhverfisvænni starfsemi? Væri ekki nærtækara að ríkisstjórnin beitti sér beinlínis fyrir því að opinber orkufyrirtæki losuðu sig undan óhagkvæmum orkusölusamningum og semdu þess í stað við þá aðila sem ekki þurfa sérstaka meðgjöf eða afslætti af hálfu ríkisins og þar með almennings?