149. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2019.

störf þingsins.

[10:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Íslensk útgerð er einn framsæknasti atvinnuvegur á Íslandi og í raun eini alvöruatvinnuvegurinn sem hægt er að bera saman við alþjóðlega mælistikur. Greinin hefur mætt minnkandi kvóta með sókn á öllum vettvangi. Í umhverfismálum hefur greinin minnkað losun koltvísýrings um 50% á útfluttar afurðir. Nú eru blikur á lofti með uppsjávarveiði, engin loðna og spár um minnkandi makríl eru misvísandi og við sækjum kolmunna langt út fyrir landhelgina. Útgerðir með framtíðarsýn horfa á nýsmíði til að geta sinnt verkefnum erlendis hluta úr árinu.

Virðulegur forseti. Við setjum slíkri útgerð skorður með stimpilgjöldum á skip sem flagga þarf út til að stunda veiðar í lögsögu annarra landa tímabundið. Kostnaður við að flagga út skipi getur numið á bilinu 50–70 millj. kr. og sömu upphæð þegar skipið er aftur skráð til landsins innan sama árs eða á bilinu 100–140 millj. kr. til að sækja fram.

Virðulegur forseti. Engum mun detta í hug að setja slíkt gjald á flugvélar skráðar á Íslandi eða starfsemi nýsköpunarfyrirtækja sem vilja starfa erlendis með tæki sín. Stimpilgjald af notkun fiskiskipa er skattlagning til að koma í veg fyrir framþróun. Stimpilgjald á skip kemur í veg fyrir að verðmæt störf skapist fyrir íslenska sjómenn. Stimpilgjald á skip er óþolandi mismunun sem stjórnvöld setja á og hamlar framþróun og þátttöku í veiðum á fjarlægum miðum.

Virðulegur forseti. Afnemum stimpilgjöld á fiskiskip. Það felast röng skilaboð í gjaldinu sem kemur í veg fyrir sköpun verðmætra útflutningsvara. Sendum skýr skilaboð til flotans um að hefja sókn á erlend mið og tryggja okkur hlutdeild í fiskstofnum sem víðast. Til þess þarf að vera jafnræði með atvinnugreinum þegar kemur að stimpilgjaldi.