150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

ársreikningar.

447. mál
[14:42]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fjallaði mikið um lítil og meðalstór fyrirtæki, eins og er reyndar mjög algengt að fólk fjalli um hér. Reyndar hefur það verið þrálát gagnrýni mín að þingmenn geri miklu meira af því að tala um lítil og meðalstór fyrirtæki en að setja lög sem gagnast þeim.

Það kom upp í efnahags- og viðskiptanefnd á dögunum að lög um ársreikninga eru í rauninni afskaplega fáar blaðsíður en alþjóðlegir reikningsskilastaðlar eru jafnvel þúsundir blaðsíðna. Það er ansi stór baggi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Öll fyrirtæki þurfa að standa skil á þessu óháð stærð og auðvitað verður þetta flóknara eftir því sem fyrirtækin eru stærri en ekki í neinu línulegu hlutfalli við vöxt þeirra. Grunnurinn er alltaf jafn lítill.

Svo nefndi hv. þingmaður bændur. Nú er raunveruleikinn sá að 90% allra fyrirtækja á landinu eru lítil fyrirtæki, oft einyrkjar, oft lítil bú eða eitthvað þannig, og öll eru þau í rauninni að uppfylla skilyrði um skil á ársreikningum sem eru eldgömul og miðast ekki við nútímatækni, miðast ekki við nútímaaðferðafræði og eru aukinheldur ansi flókin. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái í hendi sér einhverjar leiðir sem við gætum farið hér á Alþingi til að reyna að gera það léttara fyrir minnstu fyrirtækin, þá einkum með t.d. (Forseti hringir.) tækninotkun og álíka. Það er kannski ekki síst vegna þess að hv. þingmaður er með mér í framtíðarnefndinni sem (Forseti hringir.) mér finnst ástæða til að reyna að smella þessum (Forseti hringir.) málefnum öllum saman.