153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

ný vatnslögn til Vestmannaeyja.

[15:40]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir að vera hér til svars í dag. Sú spurning sem ég vil beina til ráðherra varðar stöðu neysluvatns í Vestmannaeyjum. Á síðasta ári óskaði Vestmannaeyjabær eftir fjárframlagi ríkisins upp á 700 millj. kr. vegna lagningar nýrrar vatnsleiðslu auk niðurfellingar á virðisaukaskatti vegna framkvæmdarinnar. Bærinn fékk höfnun við báðum þessum erindum. Það sætir furðu.

Frá árinu 1968 hefur verið vatnsleiðsla til Eyja frá fastalandinu og á löngu tímabili voru leiðslurnar tvær og jafnvel þrjár en þriðja leiðslan var lögð 2008. Sú leiðsla er sú eina í dag sem tryggir Vestmannaeyingum neysluvatn því hinar tvær eru ónýtar fyrir margt löngu. Þessi vatnsleiðsla sem er lífæð Vestmannaeyinga er orðin 15 ára gömul og komið að viðhaldi. Ef upp kæmi bilun í vatnsleiðslunni myndi það hafa gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir byggðina í Eyjum sem og allt atvinnulíf. Það myndi skapast alvarlegt almannavarnaástand í Eyjum á nokkrum klukkustundum og þyrfti að rýma Eyjarnar með ærnum tilkostnaði. Er núverandi lögn var tengd árið 2008 var veitt framlag úr ríkissjóði upp á 700 millj. kr. Var það gert til að tryggja að íbúar Vestmannaeyja myndu búa við sambærileg vatnsgjöld og íbúar fastalandsins.

Ríkið hefur hingað til brugðist við með alls konar stuðningi við verkefni sem snúa að því sem ógnar byggð eða búsetu víða um land. Í síðasta mánuði lýsti ríkislögreglustjóri yfir áhyggjum af þeirri öryggisógn sem er í Vestmannaeyjum vegna þessarar stöðu og hvatti til úrbóta. Ég spyr því: Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera til að leysa þessa yfirvofandi almannaógn sem stafar að Vestmannaeyjum vegna þessara nauðsynlegu innviða?