153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

lögfræðiálit varðandi hvalveiðar.

[15:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Hér í óundirbúnum fyrirspurnum bar hæstv. matvælaráðherra fyrir sig lögfræðilega skýringu á því hvernig hægt væri að stöðva hvalveiðar, að hennar ráðgjafar hefðu sagt henni að það væri ekki hægt. Nú höfum við í atvinnuveganefnd óskað eftir þessu lögfræðiáliti þrisvar sinnum í næstum mánuð og aldrei nein svör fengið þrátt fyrir ítrekanir og bókanir sem eru orðnar það margar að mér var sagt að ég væri kominn með efni í heila bók. Ég vil bara beina því til virðulegs forseta að okkur sé skilað þessum gögnum sem við óskum eftir.