135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[14:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Uppsveiflunni í hagkerfinu er lokið. Mikill samdráttur er á íbúðamarkaði og lítil fjárfesting er í atvinnuvegum landsmanna. Verðbólgan er tæplega 15%, samdráttur er í atvinnu og uppsögnum launafólks fjölgar. Kaupmáttur lækkar, heimilin eru farin að draga saman og spara. Sala íbúða og einkum bíla er jafnan fyrstu merkin um samdrátt. Þótt stjórnarandstaðan hafi varað við því í fyrrahaust var lítið úr þeim varnaðarorðum gert og jafnan talað um mjúka lendingu fram undan. Fátt bendir nú til þess. Krónan hefur fallið mikið. Bankarnir búa við lánsfjárkreppu erlendis frá og innan lands er lánsfjárkreppa og ofurháir vextir í boði til atvinnulífs og heimila.

Okkur reynist mjög erfitt að halda úti minnstu fljótandi mynt í víðri veröld. Nú er verið að skoða möguleika á evrutengingu án aðildar að ESB. Það kann að vera að sá kostur færi meiri stöðugleika í hagkerfi landsins og peningamál þegar fram í sækir.

Við í Frjálslynda flokknum höfum talað fyrir því undanfarin ár að tryggja afkomu láglaunafólks, aldraðra og öryrkja með því að hækka persónuafslátt sérstaklega svo að skattleysismörk verði að lágmarki 150 þús. kr. ASÍ, samtök launamanna, vildi fara þessa leið en ekki ríkisstjórnin sem Sjálfstæðisflokkurinn veitir forustu. Forgangsröðun Geirs H. Haardes, hæstv. forsætisráðherra, var lækkun og afnám hátekjuskattsins á sama tíma og ofurlaunamenn tryggja sér árslaun til jafns á við jafnvel 300–400 fullvinnandi verkamenn sem vinna allt árið samanlagt fyrir sömu launum og einn hæstlaunaði stjórnandi bankakerfisins. Það má segja að ofurlaunamenn hafi gjörsamlega fótumtroðið samstöðu fólksins um eðlilegt jafnræði í þjóðfélaginu. Segja má að þeirri þjóðarsamstöðu og -sátt sem áður var hafi verið stolið. Þetta sjálftökulið á að skattleggja með hátekjuskatti. Ekki mun nú af veita að auka tekjur ríkissjóðs frá þeim sem hafa ofurlaun því að venjulegt fólk stendur frammi fyrir lækkun raunlauna, okurvöxtum og verðtryggingu. Þangað, til venjulegs fólks, verður að beina aðgerðum til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimila sem gætu orðið. Þar er atvinnuleysið, sem mun að óbreyttu vaxa með haustinu, versti váboðinn. Ekki fer á milli mála að verðtrygging til viðbótar á skuldir heimila eyðir öllu eigin fé fólks á fáum missirum ef svo heldur fram sem nú er um verðbólgu.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt það til á þessu þingi, í upphafi þings haustið 2007, með þingsályktunartillögu um skipan lánamála og lánskjör einstaklinga að þau verði sambærileg við það sem er á Norðurlöndunum. Unnið verði að því að verðtrygging verði lögð af og stjórnvöld vinni að því að hér verði sambærileg lánskjör á fjármagni og í nágrannalöndum okkar. Þetta mál var lagt fram í upphafi þings, eins og ég gat um áðan, vegna þess að þingmenn Frjálslynda flokksins töldu afar brýnt að taka þá þegar á málum vegna skulda venjulegs fólks. Í niðurlagi greinargerðarinnar með þingsályktunartillögunni sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér er um mikilvægasta hagsmunamál íslenskra lántakenda að ræða, unga fólksins í landinu, fjölskyldna sem hafa skuldsett sig mikið til að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Breytingar í efnahagslífinu munu hafa veruleg og afgerandi áhrif og gætu leitt til fjöldagjaldþrota. Nauðsynlegt er að Alþingi og ríkisstjórn bregðist við áður en þessi fyrirsjáanlegi vandi verður að veruleika.“

Þetta var sagt og skrifað síðasta haust, hæstv. forseti. Einnig sagði, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að hér geti verið eðlilegur lánamarkaður fyrir neytendur sem bjóði einstaklingunum og fjölskyldunum upp á lánakjör eins og þau gerast best í okkar heimshluta í stað þess að bjóða upp á lánakjör sem eru þau verstu í okkar heimshluta.

Meðal annars af framangreindum ástæðum telja flutningsmenn nauðsynlegt að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu þessa til að tryggja hagsmuni fólksins í landinu sem best og koma í veg fyrir að neytendur þurfi að búa við vaxtaokur umfram það sem nokkurs staðar þekkist í okkar heimshluta.“

Stjórnvöld leitast ekki við að verja kjör fólksins í landinu, ekki einu sinni þar sem því verður við komið. Það vantar viljann til verka. Við getum tekið dæmi. Olíu- og bensínverð er mjög hátt og ef rétt er munað ætluðu stjórnvöld að fá rúma 15 milljarða kr. í árstekjur samkvæmt fjárlögum þessa árs í ríkissjóð af álögum á olíuvörur og bensín. Vegna hækkunar olíu og bensíns eru tekjur ríkissjóðs á yfirstandandi fjárhagsári sennilega 3–4 milljörðum kr. hærri, þ.e. 18–19 milljarðar kr. að óbreyttu. Ef ríkið lækkaði álögur sínar hefði fólkið meira til ráðstöfunar og væntanlega hefði aðgerðin líka áhrif til lækkunar vísitölu og þar með á verðbólgu og verðtryggingu lánsfjár. En það er eins og Geir Haarde, hæstv. forsætisráðherra, sé frosinn fastur þegar kemur að því að tala um að stíga skref. Það má hvergi byrja ferlið til lækkunar verðbólgu, og álögum á almenning er haldið til streitu. Eða hvar hefur ríkisstjórnin hafið þá vegferð að halda niðri hækkunum opinberra aðila eins og báðir forustumenn ríkisstjórnarinnar töluðu um í ræðum sínum? Að halda niðri hækkunum á álögum til almennings? Ég held að ríkisstjórnin þurfi virkilega að fara af stað, hæstv. forseti.

Hvar á að leggja hönd á plóg til að breyta núverandi ástandi? Getur forsætisráðherra hugsað sér sem fyrstu skref að handstýra breytingu á vísitölunni, og hvar á þá að byrja? Engar tillögur um það hafa komið mér fyrir sjónir eða ég heyrt þær frá ríkisstjórninni. Hvar á að hefja þessa vegferð? Hér tala ráðherrarnir báðir, forustumenn ríkisstjórnarinnar, um að það þurfi að halda niðri verðlagi og álögum á almenning.

Hæstv. forseti. Við búum við hátt álverð á heimsmarkaði og það er samfara aukinni framleiðslu. Við verðum í þessari stöðu að nýta öll tækifæri og forðast atvinnuleysið eins og framast er hægt. Við búum einnig við hátt verð á fiskafurðum okkar sem er jákvætt. Við leyfum hins vegar allt of litlar þorskveiðar í lögsögu okkar. Þar er allt til staðar, skipin, áhafnir, fólkið í landi, vinnslustöðvarnar, sjávarbyggðirnar sem bíða eftir aukinni vinnu. Hafnirnar þurfa líka aukin verkefni. Að mati allra fiskimanna sem ég hef rætt við á þessu sumri er ekki nein sérstök áhætta af því að auka þorskveiðina jafnvel um 100 þús. tonn. Og hvað mundi það þýða fyrir þjóðarbúið ef það yrði gert? Það væru nýir peningar upp á 40–50 milljarða í útflutningstekjur. Niðursveiflan væri stöðvuð og miklu betra fyrir okkur að taka lán á Selvogsbankanum eða Eldeyjarbankanum en í erlendum lánastofnunum. Það er algjör óþarfi hjá Geir Haarde og Einari K. Guðfinnssyni, hæstv. ráðherrum, að skjálfa af hræðslu við auknar þorskveiðar þótt það hafi verið mat þeirra í fyrra að allt væri svo stórkostlega gott á landi hér að við mættum til með að skera niður, við þyldum það svo vel. Þannig var talað í fyrravor, við þyldum það svo vel að skera niður.

Nú þarf hins vegar að taka á vandanum og reyna að stefna út úr kreppunni en ekki inn í hana. Ég tel að við eigum að taka stefnuna út úr kreppunni, hæstv. forseti, alveg tvímælalaust og ef ég man rétt úr ræðu hæstv. forsætisráðherra áðan sagði hann eitthvað á þá leið að það væri rétt að taka áhættu af því að seilast í forðabúrið.

Hæstv. forseti. Það virðist orðið ljóst að stýrivaxtastefna Seðlabankans virkar ekki og lánakjör fólks og fyrirtækja til atvinnu í landinu rýrna sem er alls ekki það sem við þurfum nú. Hér þarf með öllum ráðum að efla atvinnu og koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi. Yfirlýsing hæstv. sjávarútvegsráðherra í fréttum sjónvarps í gær um að niðurskurðarstefna hans í þorskveiðum hefði ekki orsakað miklar breytingar í útgerðarháttum vekur vægast sagt furðu þegar vitað er að útgerð í landinu liggur niðri í 2–3 mánuði yfir hábjargræðistímann og fiskvinnslustöðvum er lokað. Handfæraveiðar eru svo til að leggjast af, eru ekki nema svipur hjá sjón, og þarf ekki að leita nema 2–3 ár aftur til að sjá það. Þetta veldur tekjuhruni sjómanna og fiskvinnslufólks. Í hvaða heimi dvelur hæstv. sjávarútvegsráðherra? Við þurfum að gera allt sem við getum til að auka tekjur og atvinnu, hæstv. forsætisráðherra, og að því vékst þú í ræðu þinni.

Ég tek undir þau orð að hér þurfi að efla tekjustig og atvinnu og til þess eigum við að grípa til allra þeirra ráða sem við teljum í boði. Besta ráðið í því er að reyna að auka tekjur í samfélaginu. Það fer ekki á milli mála. Allt það sem getur dregið hér úr atvinnusköpun er okkur stórhættulegt við núverandi ástand, þar með talið að reyna að keyra í gegn það matvælafrumvarp sem var til umræðu síðasta vor en er sem betur fer ekki á dagskrá þingsins núna. Og væntanlega eru menn að endurskoða það mál gaumgæfilega vegna þess að þar var því spáð af framleiðendum að ef svo færi fram sem horfði í því frumvarpi gætu tapast þúsundir starfa í mjólkuriðnaði og það mundi hafa veruleg áhrif á stöðuna í landbúnaði. Ekki er á bætandi eins og staðan er í landbúnaði og ber fundur í Búðardal nýverið um stöðu landbúnaðarins og sérstaklega sauðfjáreignarinnar vitni um það hvaða áhyggjur menn hafa af framtíð sinni þar. Þar kemur auðvitað margt til, hækkandi olíuverð, hækkandi áburðarverð o.s.frv. og líka það að menn sjá að það er erfitt að koma fram miklum verðhækkunum í þjóðfélaginu við núverandi aðstæður. Bændur standa frammi fyrir því. Bændur hafa jafnan sýnt mikla ábyrgð þegar komið hefur að því að takast á við vanda í þjóðfélaginu. Ég minni á þjóðarsáttina sem bændur voru ekki hvað síst þátttakendur í og áttu mikinn þátt í að festa niður verðlag, halda því stöðugu og tryggja að íslensk heimili kæmust af í þeim þrengingum og þeim breytingum. Það er akkúrat það sem við þurfum að gera, hæstv. forseti, við núverandi aðstæður. Við þurfum að tryggja það að fjölskyldurnar komist af, við þurfum að koma í veg fyrir að gjaldþrot verði sú framtíðarsýn sem unga fólkið þarf að horfa til á næstu missirum. Með núverandi verðtryggingu og verðbólgu eru miklar líkur á því að mjög margt ungt fólk lendi í svo miklum erfiðleikum að það kjósi jafnvel að yfirgefa landið.

Við horfum fram á mikinn samdrátt í atvinnu á landinu og stefnir sérstaklega í það í byggingariðnaði. Við horfum líka fram á það að skuldaaukning heimila og atvinnuvega er ótrúlega mikil á stuttum tíma, hún hefur fimmfaldast hjá heimilunum frá 1995 og tífaldast í atvinnulífinu. Líklegt er að skuldir útgerðarinnar sem voru 95 milljarðar árið 1995 séu núna um 400 milljarðar á sama tíma og útgerðin býr eðlilega við mjög hátt verð á sínum helsta kostnaðarlið sem er olían þannig að það er að mörgu að hyggja.

Það verður hins vegar að segjast eins og er að við fengum sérstaka gjöf í sumar sem enginn gerði ráð fyrir, fisktegund sem synti inn í íslensku lögsöguna. Af henni er búið að veiða yfir 100 þús. tonn. Sjávarútvegsráðherra hefur ekki neinar sérstakar áhyggjur af því enda er það bara fínt hjá honum. Hann á ekki að hafa neinar sérstakar áhyggjur af því þó að aflist á Íslandsmiðum. Þessi stofn er samt kvótaskiptur í Norður-Atlantshafinu og við erum að veiða hann utan kvótaskiptingar og eigum fullan rétt til þess en tökum þar vissulega einhverja áhættu. En við eigum, hæstv. forseti, fyrst og fremst að horfa til þess hvar við getum aukið tekjurnar án mikils tilkostnaðar og ég segi alveg hiklaust að við getum gert það í þorskveiðunum. Og við eigum að gera það. Annað er ábyrgðar- og kjarkleysi og ég trúi því ekki að þessir tveir herrar sem standa úti í horninu núna ætli sér að halda áfram á þeirri vegferð.