135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:01]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Bjarna Harðarsyni að mér fundust ræður hv. þm. Árna Páls Árnasonar vera þess eðlis að maður vissi ekki alveg í upphafi hvernig endirinn mundi verða. Í upphafi talað um eitt og ræðunni var lokið með öðrum hætti.

Eitt af því sem hv. þm. Árni Páll nefndi í ræðu sinni var að það væri mikilvægt að gefa ekki eldsmat fyrir verðbólguna og talaði þá um að gefa yrði fyrirheit um stöðugleika. Þá spyr ég: Hvaða fyrirheit hefur ríkisstjórnin gefið um stöðugleika? Hvaða fyrirheit sér þingmaðurinn fram á að ríkisstjórnin muni gefa um stöðugleika? Var eitthvað í máli helstu forustumanna ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra eða utanríkisráðherra, sem gaf fyrirheit um stöðugleika? Var talað um eða minnst á með hvaða hætti lægra verðbólgustigi yrði náð, með hvaða hætti við gætum afnumið verðtryggingu lána og skapað fjölskyldunum í landinu sambærileg lánakjör og gerist annars staðar í okkar heimshluta? Var einhvers staðar talað um með hvaða hætti yrði um að ræða viðunandi vexti fyrir atvinnulífið í landinu? Var einhvers staðar talað um með hvaða hætti atvinnustigið yrði tryggt?

Þetta eru allt saman atriði sem skipta máli ef gefa á fyrirheit um stöðugleika. Ég hlýt að spyrja að gefnu tilefni: Fyrst það er að mati þingmannsins mikilvægasti hluturinn að ríkisstjórnin gefi fyrirheit um stöðugleika — og ég gat ekki skilið þingmanninn öðruvísi en að ríkisstjórnin hefði gefið slík fyrirheit — hvar er slík fyrirheit að finna og hvað er það í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem bendir til þess að um verði að ræða stöðugleika í íslensku þjóðlífi og efnahagskerfi á næstunni?