135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:33]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi greiningardeildir bankanna. Ég nefndi þær nú ekki á nafn og tel að það sé auðvitað annað mál sem þær eru að gera en það sem unnið var á vegum Þjóðhagsstofnunar. Hins vegar eru þær til marks um það hvað margir aðilar eru komnir inn á þennan vettvang og hvað það er orðið miklu einfaldara og tæknilega hægara um vik fyrir aðila sem á annað borð geta fjármagnað slíka starfsemi að sinna þessu. Háskólarnir eru líka með efnahagsspár og svo framvegis.

Ég vil aðeins mótmæla einu sem fram kom í máli hv. þingmanns því að mér fannst hann gera lítið úr því að fjármálaráðuneytið og efnahagsdeild þess gæti unnið faglega eða ópólitískt sína vinnu. Það vil ég fullyrða og þekki sjálfur sem fyrrverandi fjármálaráðherra og veit að það er enn þá þannig undir stjórn núverandi fjármálaráðherra að engin pólitísk afskipti eru höfð af því hvernig menn vinna sína spávinnu þar eða haga sínum störfum. Það eru reyndar mörg ár, ætli það séu ekki að verða 20 ár, síðan tekjuspáin sem fylgir fjárlagafrumvarpinu og er grunnurinn að öðrum helmingi fjárlagafrumvarpsins var flutt úr Þjóðhagsstofnun gömlu yfir í fjármálaráðuneytið. Fjármálaráðuneytið hefur því annast þann þátt málsins mjög lengi og hefur aldrei hlotið sérstakar ákúrur fyrir það enda hefur verið stundum deilt um það hvort fjármálaráðuneytið væri líklegra til að hækka spána til að auka afgang eða draga úr halla eða að lækka tekjuspána til þess að minnka kröfur á hendur ríkissjóði. Þetta er nú bara þannig að þó að þetta sé formlega vistað í fjármálaráðuneytinu þá vinna þeir embættismenn sem á þessu bera ábyrgð störf sín af fullum heiðarleika og einlægni og það leyfi ég mér að fullyrða.