136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gott að hæstv. menntamálaráðherra hefur staðfest það sem mig grunaði, að hún kom að góðu búi frá forvera sínum í menningarmálum. Hún sagði réttilega að hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra hefði sýnt menningarmálunum mikinn áhuga og beitt sér á margvíslegan hátt í þeim efnum, m.a. með uppbyggingu menningarhúsa úti á landsbyggðinni. Mér er að vísu kunnugt um að þar vantar enn þá fjármagn sem gæti líka verið hluti af því að efla skapandi hugsun og skapandi vinnu á þessu sviði á landsbyggðinni. Í öðru lagi sagði hæstv. ráðherra að þegar hún hefði komið í ráðuneytið hefðu verið fullar hirslur fjár til að mæta þessum útgjöldum sem hæstv. ráðherra er núna að leggja til.

Það breytir ekki því að í mati fjármálaráðuneytisins sem er fylgiskjal með þessu frumvarpi er vakin athygli á því að þetta muni leiða til þess að það þurfi að afla sérstaks lánsfjár við þessar aðstæður vegna þess að ríkissjóður er rekinn með miklum halla. Það er ekki sjálfgefið að þó að peningar finnist í menntamálaráðuneytinu sé þeim varið með þessum hætti. Það er spurning sem hæstv. ráðherra þarf að svara og hefur svarað. Það gerir það þá væntanlega að verkum að ýmsir aðrir hlutir verða að sitja á hakanum og það er auðvitað bara þannig.

Aðalatriðið er þá þetta: Ég gagnrýndi ekki að það væri reynt að styðja við skapandi hugsun. Öðru nær, ég vakti athygli á því að við fögnuðum í sjálfu sér ýmsu af því sem þarna væri lagt til. Við töldum skynsamlegt að opna á þessar leiðir fyrir sviðslistafólk og hönnuði. Við fögnuðum líka möguleikanum á að flytja fjármuni á milli launasjóða o.s.frv. þannig að aðfinnslur okkar í þessum efnum lúta alls ekkert að því sem var meginmál hæstv. menntamálaráðherra; að búa sem best að listamönnum og þeim starfa við það sem hæstv. ráðherra kallaði skapandi störf á þessu sviði.

Við vöktum einfaldlega athygli á þeim aðstæðum sem núna eru uppi þar sem fjárhag ríkisins eru svona þröngar skorður settar. Fjármálaráðuneytið leggur mat á þessa hluti og ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra hafi farið af stað með frumvarp þar sem liggur fyrir mat fjármálaráðuneytisins ef það væri í óþökk hæstv. menntamálaráðherra. Við verðum að taka það sem gefna staðreynd sem stendur í því sem fylgir þessu frumvarpi. Það liggur þá fyrir að mat fjármálaráðuneytisins sem fylgir frumvarpi hæstv. ráðherra er að þetta muni verða fjármagnað, ef ekki (Forseti hringir.) á þessu ári þá a.m.k. á næstu árum með lántökum.