139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[15:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta voru nokkuð margar spurningar hjá hv. þingmanni í andsvari hans og ekki allar einfaldar. Ég vil í fyrsta lagi segja að ég held að nái þetta frumvarp fram að ganga hljóti það eingöngu að eiga við um þann málarekstur sem nú stendur yfir, þ.e. verið er að framlengja kjörtímabil þeirra dómara sem eru í landsdómi núna og fást við þetta tiltekna mál. Eins og hv. þm. Atli Gíslason sagði liggur fyrir þinginu, samkvæmt lögum, að því ber að kjósa nýjan landsdóm 11. maí, hygg ég að það sé (Gripið fram í.) í síðasta lagi, og fyrir fram gef ég mér ekki annað en að það gerist.

Hitt er svo annað mál og að því vék hv. þingmaður í máli sínu, að færi svo að allt þetta mál frá upphafi til enda kæmi til skoðunar hjá Mannréttindadómstólnum í Strassborg, sem er hugsanlegt undir einhverjum kringumstæðum, hygg ég að afskaplega margir þættir varðandi málið frá A til Ö mundu, ja, ég get alla vega leyft mér að segja vekja athygli hjá þeim dómi miðað við hvernig hann hefur áður fjallað um mál. Margir þættir málsins mundu kalla á frekari skýringar því að mjög margt í því og allri málsmeðferðinni er engan veginn í samræmi við það sem við getum kallað viðurkenndar og réttar aðferðir við réttláta málsmeðferð.