139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svör hans. Það liggur fyrir að það virðist hafa verið draumur í töluverðan tíma að stokka upp í stjórnarráðsmálunum. Okkur er það minnisstætt að keyrt var á það af mikilli hörku að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ekki fyrir svo löngu en það var tekið út úr því frumvarpi sem þá var afgreitt. Í framhaldinu kemur svo þetta frumvarp núna.

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hverjar hann telji hvatirnar á bak við frumvarpið og hvort hann telji að þetta sé, miðað við þau miklu verkefni sem við erum glíma við í dag, forgangsfrumvarp og sé mjög mikilvægt fyrir alla þá sem glíma við að ná endum saman um hver mánaðamót og annað því um líkt, hvort þetta sé forgangsmál að hans mati.