139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvenær er frumvarp stjórnarfrumvarp? Ég held að í gegnum tíðina hafi svarið við þessari spurningu nokkurn veginn legið fyrir í augum flestra. Ég held að sjaldnast hafi menn velt mikið vöngum yfir þessu en hæstv. núverandi ríkisstjórn hefur auðvitað búið til algjörlega ný viðmið. Þess vegna var ég að reyna að kalla eftir því hjá hæstv. forsætisráðherra að hún svaraði því hvenær hún teldi að frumvarp væri stjórnarfrumvarp.

Ég hefði talið að a.m.k. eitt af þeim skilyrðum sem hv. þingmaður spurði um áðan, t.d. að ríkisstjórnin í heild stæði að málinu eða það væri ljóst að meiri hluti væri fyrir málinu af hálfu þeirra sem kallast stjórnarliðar sem tryggði meiri hluta á Alþingi af hálfu stjórnarliða eða þá að það væri ákveðinn stuðningur beggja stjórnarflokka við málið. Mál sem er hins vegar þannig í pottinn búið að það nýtur ekki stuðnings ríkisstjórnarinnar, það nýtur ekki stuðnings nema annars stjórnarflokksins, og er þannig í fullkominni óvissu um hvort um það er pólitískur meiri hluti í þinginu finnst mér varla geta kallast stjórnarfrumvarp. Mér sýnist þetta mál nefnilega smám saman leggjast þannig út að þetta sé ekki stjórnarfrumvarp, heldur samfylkingarfrumvarp.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hversu langan tíma sameiningar ráðuneytanna taka hef ég reynslu af því. Þetta er mjög vandasamt verkefni. Ég tel að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi verið komið í mjög góða fúnksjón þegar leið á árið 2008. Það tekur auðvitað tíma. Ég er ekki að segja að á þeim tíma sé Stjórnarráðið á einhvern hátt ekki vel virkt en það tekur auðvitað tíma að slípa svona hluti saman. Það þekkja menn bæði af sameiningu fyrirtækja, stofnana og ekki síst ráðuneyta. (Forseti hringir.) Þess vegna verða menn að ætla sér ákveðinn tíma í það mál.