139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa flutt mjög málefnaleg og ítarleg rök fyrir andstöðu sinni við þetta frumvarp. Hér fer auðvitað ekkert á milli mála. Hæstv. ráðherra talaði mjög um að það væri mikilvægt þegar verið væri að breyta lögum eins og lögunum um Stjórnarráð Íslands að reynt væri að ná um það sem breiðastri pólitískri samstöðu á milli flokkanna. Er þá hæstv. ráðherra ekki sammála mér um að góð byrjun í þeim efnum væri að ná einhverri samstöðu um þetta mál á milli stjórnarflokkanna? Það liggur fyrir fullkominn fyrirvari af hálfu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og hefði það þá ekki verið eðlilegt af hálfu hæstv. forsætisráðherra að doka við með málið til að freista þess að ná um það mál einhverri samstöðu en leggja það ekki fram með þessum hætti sem nú er verið að gera, kasta því inn í þingið án þess að hafa nokkra hugmynd um hvort á bak við það sé pólitískur meiri hluti? Þetta er ekkert venjulegt mál, við erum hér að tala um eina meginstoð íslenskrar stjórnskipunar, þ.e. sjálft framkvæmdarvaldið, Stjórnarráð Íslands. Hefði þá ekki a.m.k. verið eðlileg byrjun að tryggja að um það (Forseti hringir.) mál væri samstaða á milli stjórnarflokkanna sem bera (Forseti hringir.) hina pólitísku ábyrgð á málum af þessu taginu?