140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:48]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að hægt er að ná fram meiri vissu í greininni með samningum en leyfum sem hægt er að breyta frá ári til árs, getum við sagt. Samningar þar sem rekstrarumhverfið er fyrirséð þó nokkuð langan árafjölda fram í tímann leiða til þess að ákvarðanir um fjárfestingar í greininni verða mun auðveldari og allur rekstur heilbrigðari. Það er hægt að taka langtímaákvarðanir sem leiða til þess að hagkvæmnin verður meiri í greininni og vissan sömuleiðis.

Við sjáum til dæmis vandamálin við óvissuna í sjávarbyggðunum kringum landið, bæði hvað varðar atvinnu fólks og hugsanir þess um framtíðina, þannig að ég er eindregið sömu skoðunar og þingmaðurinn. Við erum ekki einir um þá skoðun, ég held að það sé almennt viðurkennt að því meiri vissa sem er í atvinnurekstri, því betra sé það upp á langtímahugsun, fjárfestingu og atvinnuöryggi fólks.