140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[19:01]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðari spurninguna finnst mér slík ummæli dæma sig sjálf, ég efast um að þau nái vel í gegn hjá þeim sem þau hafa uppi.

Varðandi fyrra atriðið er að sjálfsögðu nauðsynlegt að taka undir með þingmanninum og svara því játandi. Ég tel nauðsynlegt að fara mjög vandlega yfir áhrifin af þeim breytingum sem við erum að ræða á alla þá aðila sem þjónusta sjávarútveginn, á sjávarútvegsklasann á Íslandi í heild sinni. Það eru líka vinnubrögðin sem almennt hafa verið viðhöfð á fyrri árum þegar við höfum rætt mál af þessum toga. Við vorum t.d. með frumvarp um stjórn fiskveiða árið 1990 til umræðu í þinginu og þeir sem lesa það frumvarp sjá hversu margir voru kallaðir til til að meta þörfina fyrir breytingar og (Forseti hringir.) afleiðingar þess að gera þær breytingar sem um var rætt. Það tekur engu tali að þessi mál skuli hafa verið lögð fram í þinginu án samráðs við nokkurn mann.